Fréttir

  • Sjór flæðir inn í Rússatogarann Orlik í Njarðvíkurhöfn
  • Sjór flæðir inn í Rússatogarann Orlik í Njarðvíkurhöfn
Þriðjudagur 30. maí 2017 kl. 23:19

Sjór flæðir inn í Rússatogarann Orlik í Njarðvíkurhöfn

Nú er verið að dæla sjó úr rússneskum togara, Orlik, í Njarðvíkurhöfn. Óskað var aðstoðar frá Köfunarþjónustu Sigurðar í kvöld þegar ljóst var að talsverður sjór var kominn í skipið og það var tekið að halla þar sem það er bundið við bryggju í Njarðvík.
 
Orlik hefur legið við bryggju í Njarðvíkurhöfn í nokkur ár. Skipið var dregið til Hafnarfjarðar á dögunum þar sem það fór í slipp þar sem átti að kanna ástand á botni þess og sjóða fyrir op á skrokki skipsins.
 
Skipið var dregið aftur til Njarðvíkurhafnar sl. föstudag en skipið á að fara á næstu dögum yfir Atlantshafið en það verður rifið í brotajárn á meginlandi Evrópu.
 
Það kom mönnum því töluvert á óvart að skipið var að fyllast af sjó í höfninni í kvöld, í kjölfar þeirra fyrirbyggjandi aðgerða sem ráðist var í fyrir nokkrum dögum.
 
Skipið er stórt og það var því ekki hlaupið að því að koma dælum og búnaði um borð til að hefja dælingu úr því. Ekki var vitað hvar sjór var að komast í skipið.
 
Meðfylgjandi myndir voru teknar nú áðan í Njarðvíkurhöfn. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson