Fréttir

Sníkt á þrettándanum
Mánudagur 10. janúar 2005 kl. 11:24

Sníkt á þrettándanum

Það er alltaf sérstök stemning í Grindavík á þrettándanum en þá fara ýmsir púkar og kynjaverur á stjá í þeim tilgangi einum að sníkja sælgæti hjá saklausum borgurum sem eiga sér einskis ílls von en eiga þó furðulega mikið af gotteríi. Mátti sjá margar furðuverur hlaupa við fót á milli húsa með vænan feng í poka og vonarglampa í augum um enn meira nammi í næsta húsi.

Fjölmennt var í skrúðgöngu sem leidd var af álfadrottningu og álfakóngi en gengið var upp Víkurbraut og sem leið lá niður að Saltfisksetri þar sem við tóku jólasveinar ásamt öðrum kynjaverum. Barnakórinn söng áramótalög undir stjórn Rósalindar Gísladóttur og voru svo jólin endanlega kvödd með glæsilegri flugeldasýningu björgunarsveitarinnar Þorbjarnar en sýningin var í boði Grindavíkurbæjar.

Myndin: Púkar og aðrar furðuverur fengu sælgæti hjá saklausum borgurum Grindavíkur á þretttándanum. VF-ljósmynd/Þorsteinn G. Kristjánsson.