Súrefnisgjöf bjargaði lífi þriggja katta
– íbúð fylltist af reyk eftir að eldur kom upp í potti á eldavél
Þremur köttum var bjargað úr brennandi íbúð á Ásbrú í Reykjanesbæ nú í morgun. Lögreglumenn gáfu köttunum súrefni og nudduðu í þá lífi á vettvangi og ekið var með þá á forgangi á dýraspítala í Reykjanesbæ. Kettirnir voru nær líflausir þegar þeir fundust en eru nú farnir að braggast.
Tilkynnt var um eld í potti í íbúð í 1200-hverfinu á Ásbrú í morgun. Fjölmennt lið slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna var skammt frá í líkamsrækt þegar útkallið kom og var því fljótt á vettvang.
Mæðgur voru í íbúðinni þegar eldurinn kom upp og komust þær af sjálfsdáðum út úr brennandi íbúðinni. Hins vegar voru þrír kettir í íbúðinni þegar slökkviliðið kom að. Fundust þeir á svefnherbergisgólfi og voru hálf lífvana enda mikill og þykkur svartur reykur um alla íbúð. Köttunum var komið út um glugga á svefnherbergi. Í framhaldinu settu lögreglumenn súrefnisgrímur á kettina og nudduðu í þá lífi en kettirnir voru eins og fyrr segir nær líflausir.
Húsráðandi fór með einn kött til dýralæknis og lögreglan fór í kjölfarið með tvo til viðbótar á dýraspítalann. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta voru kettirnir að braggast og voru komnir í súrefniskassa en þeir hafa án efa fengið reykeitrun.
Talsvert tjón varð í íbúðinni. Eldurinn kom upp í potti á eldavél og eldurinn komst einnig í innréttingu ofan við eldavélina. Þá fylltist íbúðin af kolsvörtum reyk.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á vettvangi brunans nú í morgun.
Ketti bjargað út úr íbúðinni.