Fréttir

Svona verður Hafnargata 12
Þriðjudagur 23. október 2018 kl. 06:00

Svona verður Hafnargata 12

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti 16. október sl. tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Hafnargötu 12 í Keflavík og hefur deiliskipulagsbreytingin nú verið auglýst á vef Reykjanesbæjar.
 
„Markmið tillögunnar er að draga hluta húsanna frá Hafnargötunni tilbaka, þannig skapast bæjarrými fyrir gesti og íbúa og í leið opnar á sjónlínu að Hafnargötu 6 (Ungó). Vinna með fjölbreytileika og uppbrot í framhlið hússanna sem snýr að Hafnargötu, en húsin hafa þá sérstöðu að liggja við eitt helsta samkomusvæði Reykjanesbæjar með útsýni yfir Hólmsbergið og Keflavíkina. Staðsetja húsin þannig að sem minnsta ónæði skapast fyrir íbúa í kring, en á sama tíma móta fyrir útivistarými íbúanna sjálfa, þar sem skjól og dagsljós er nægilegt allt árið í kring. Færa bílastæði neðanjarðar svo ásýnd raskist ekki og tengsl við nærliggjandi íbúðarhverfi sé grænt. Með bílkjallara er hægt að auka bílstæðakröfu frá 1 stæði á íbúð í 1,2-1,5 stæði og þar með draga verulega úr álagi bíla í umhverfinu. Deiliskipulagið skilgreinir byggingarreit fyrir skrifstofubyggingu og iðnaðarhús norðan við aðkomuveg að lóðinni og aðra byggingarreiti á lóð. Lóðin er skilgreind sem geymslu- og athafnalóð,“ segir í deiliskipulagstillögunni á vef Reykjanesbæjar.
 
Tillögur verða til sýnis á skrifstofu Reykjanesbæjar að Tjarnargötu 12 frá og með 25. október til 6. desember 2018. Tillögur eru einnig aðgengilegar á heimasíðu Reykjanesbæjar: reykjanesbaer.is.
 
Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 6. desember 2018. Skila skal inn skriflegum athugasemdum á skrifstofu Reykjanesbæjar á Tjarnargötu 12 Reykjanesbæ eða á nefang skipulagsfulltrúa, [email protected]
 
Samkvæmt ákvörðun Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar á dögunum verður tillagan einnig kynnt íbúum á sérstökum kynningarfundi.
 
 
Viðreisn
Viðreisn