Það á bara að loka þessu
-„Heilsa íbúa verður að vera númer eitt,“ segir formaður bæjarráðs
Íbúar Reykjanesbæjar hafa kvartað yfir mikilli lykt sem finnst nú víðs vegar í bænum út frá kísilveri United Silicon í Helguvík. Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, segir að nú sé nóg komið. „Heilsa íbúa verður að vera númer eitt, ekkert annað skiptir máli.“
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur óskað eftir fundi með Umhverfisstofnun en hann mun fara fram í næstu viku.
„Það er sorgleg staða hér í bæ núna. Það er kísillykt yfir öllu. Nú er bara nóg komið af þessari vitleysu. Það á bara að loka þessu,“ segir Friðjón í samtali við Víkurfréttir.