Fréttir

Þjóðarleikvangur í Reykjanesbæ?
Föstudagur 16. september 2022 kl. 08:00

Þjóðarleikvangur í Reykjanesbæ?

„Reykjanesbær þarf að setja upp metnaðarfulla langtímaáætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja og setja fram tímasettan aðgerðalista þannig að farið sé eftir áætluninni,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokksins á síðasta fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.

Þá segir í bókuninni: „Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að bæjarstjóra verði falið að leitast eftir viðræðum við KSÍ um byggingu þjóðarknattspyrnuleikvangs í Reykjanesbæ, en nú eru nokkur önnur bæjarfélög á höttunum eftir að fá þessa höll til sín. Reykjanesbær gæti lagt fram landsvæði og uppbygging orðið í samvinnu við einkaaðila. Mikill kostur er að hafa slíkan þjóðarleikvang nálægt alþjóðaflugvelli.

Þjóðarknattspyrnuleikvöllur mun styðja við íþróttastarf í Reykjanesbæ. Mikilvægt er að vinna þannig til framtíðar og að við stöndum undir nafni sem íþróttabær.“

Undir bókunina rita þau Guðbergur Reynisson, Margrét A. Sanders og Helga Jóhanna Oddsdóttir.