Fréttir

Þýsk kona með hass í Leifsstöð
Föstudagur 27. september 2002 kl. 17:25

Þýsk kona með hass í Leifsstöð

Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli stöðvaði í gær við hefðbundið tolleftirlit konu sem reyndist við nánari leit vera með eitt kg af hassi innanklæða. Konan, sem er 36 ára þýskur ríkisborgari, var að koma frá Kaupmannahöfn í hádeginu í gær. Hún var í framhaldinu handtekin af tollgæslunni. Fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík tók við rannsókn málsins og var konan úrskurðuð í viku gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Samkvæmt upplýsingum frá SÁÁ er áætlað götuverðmæti eins kílós af hassi um 2,5 milljónir króna.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins á Netinu frá Sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli hefur fjöldi fíkniefnamála sem komið hafa til kasta tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli á þessu ári aldrei verið meiri, eða alls 60 mál. Allt árið í fyrra voru þau 41. Áberandi er hversu margir erlendir ríkisborgarar tengjast þessum málum. Á þessu tæplega tveggja ára tímabili hefur 21 erlendur ríkisborgari verið stöðvaður með fíkniefni. Flestir þeirra hafa verið danskir, eða 10 talsins, þrír Þjóðverjar, tveir Bretar og sex frá öðrum ríkum.