Fréttir

Tómas „bjargar Jamestown“ fyrir Sandgerðisbæ
Fimmtudagur 14. september 2006 kl. 13:57

Tómas „bjargar Jamestown“ fyrir Sandgerðisbæ

Sandgerðisbær hefur samþykkt að veita Tómasi Knútssyni fjárstyrk upp á allt að 800.000 krónur til að koma munum úr Jamestown til varðveislu í Sandgerði.
Tómas hafði óskað eftir samkomulagi um að anker og fleiri munir sem eru til úr seglskipinu Jamestown verði varðveittir og saga þess skips verði gerður sómi í Sandgerði í tengslum við Fræðasetrið og Efra-Sandgerði.

Meirihluti bæjarstjórnar felur bæjarstjóra að semja um hlut Sandgerðisbæjar við Tómas og fagnar því að botn fáist í varðveislu umræddra muna í bæjarfélaginu.

Á heimasíðunni leoemm.com segir:
„Á morgni hvítasunnudags, 26. júní árið 1881 brá mönnum í Höfnum á Suðurnesjum í brún; heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og auðséð að það hafði verið lengi á reki því seglbúnaður þess og reiði var horfinn að mestu leyti.

Við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, - líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Skipið var fullhlaðið borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður.“