Fréttir

Tvö slys í hálku
Þriðjudagur 22. febrúar 2005 kl. 10:05

Tvö slys í hálku

Tvö umferðaróhöpp urðu með stuttu millibili um miðnætti. Fyrst missti varnarliðsmaður stjórn á jeppa sínum á Vogavegi með þeim afleiðingum að bifreiðin valt út fyrir veg og hafnaði á toppnum. Sá bandaríski slapp án meiðsla en bifreið hans skemmdist mikið og var flutt af staðnum með dráttarbifreið. Mjög mikil hálka hafði skyndilega myndast á veginum.

Hálkan var aftur til trafala stuttu síðar þegar ung stúlka missti stjórn á bifreið sinni á Sandgerðisvegi og fór bifreiðin út fyrir veg og valt. Ökumaðurinn var talinn viðbeinsbrotinn en farþega sakaði ekki. Bifreiðin var mikið skemmd og var hún flutt af staðnum með dráttarbifreið.