Uppfært hættumatskort gefið út
Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumatskort vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.
Eins og áður sýnir kortið mat á hættum sem eru til staðar og nýjum hættum sem gætu skapast með litlum fyrirvara innan tilgreindra svæða. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hættur geta leynst utan þeirra.
Heildarhættumat fyrir svæðin er óbreytt frá síðasta korti. Þó er breyting á mati á hættu í tengslum við sprungur innan svæðis 4, þ.e. Grindavík.
Hætta í tengslum við skyndilega opnun á sprungum sem hafa verið kortlagðar innan bæjarmarka Grindavíkur hefur verið metin hærri. Sú breyting hefur hins vegar ekki áhrif á heildarhættumat fyrir Grindavík. Það skal tekið fram að hætta í tengslum við sprungur er bundin við þekkt og afmörkuð svæði innan bæjarmarkanna.
Kortið gildir til þriðjudagsins 16. janúar að öllu óbreyttu.