Fréttir

Verðum að framleiða okkur út úr kreppunni
Laugardagur 4. maí 2013 kl. 11:24

Verðum að framleiða okkur út úr kreppunni

„Ég tel að úrslit kosninganna muni verða Suðurnesjamönnum til heilla. Sjálfstæðisflokkurinn náði inn fjórum þingmönnum og við munum vinna vel saman. Það er góður hópur nýrra þingmanna sem sest á næsta þing og mikilvægt að við vinnum saman að laus þeirra mála sem hafa beðið hér allt kjörtímabilið.
Við verðum að sýna stuðning við álverið og framkvæmdir í Helguvíkurhöfn og þar verðum við að standa saman. Ég vil vinna að því að leiðrétta mismun á stuðningi ríkisins við opinberar stofnanir og verkefni hér á Suðurnesjum og eins á Suðurlandi. Lægri framlög til atvinnuþróunar, mennta- og menningarmála, heilbrigðisþjónustu og aðbúnað fyrir eldri borgara svo nokkuð sé nefnt. Við erum langt undir öllum öðrum landshlutum á landinu þegar kemur að stuðningi ríkisins við þessa þætti og fleiri eins og ég hef áður skrifað um.  Ég mun ekki bara tala um það að vera góður málssvari Suðurnesja, ég mun verða góður málsvari Suðurnesja og kjördæmisins alls. Við verðum að standa með atvinnuuppbyggingu og atvinnulífinu. Koma fjárfestingum í gang og tryggja aukna verðmætasköpun í landinu. Framleiða okkur út úr kreppunni og skapa fleiri vel launuð störf. Það er afar mikilvægt hér á Suðurnesjum,“ segir Ásmundur Friðriksson, fjórði þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Ásmundur er nýr á Alþingi.

- Hvað á að vera það fyrsta sem þið sem hópur þingmanna frá Suðurnesjum ættuð að hafa sem fyrsta verk fyrir Suðurnes á Alþingi?

„Ég hef nefnt álverið, því verður að koma í gang og skýr krafa til þeirra sem bera ábyrgð á því að verkefnið fara í gang innan fárra vikna eða mánaða. Gríðarlega mikilvægt fyrir Suðurnesin og landið allt. Við munum strax leggja okkar af mörkum til að flytja Landhelgisgæsluna á Suðurnes. Það getur tekið mörg ár en við verðum að fá það mál í gegn sem fyrst svo hefja megi nýja uppbyggingu Gæslunnar og þátttöku í öryggis- og eftirlitsmálum með norðurheimskautasiglingum og eftirliti með framkvæmdum á austurströnd Grænlands. Víst er að erlendar þjóðir vilja taka þátt í slíkri uppbyggingu og tryggja þannig öryggi og hagsmuni fyrirtækja sinna. Efla heilbrigðisþjónustuna á HSS og tryggja rekstur og þjónustu sjúkrahússins ásamt Brunavörnum Suðurnesja og sjúkraflutningum þeirra. Efla menntun og nýsköpun á svæðinu og halda áfram uppbyggingu háskólasamfélagsins í Keili á Ásbrú,“ segir Ásmundur Friðriksson í samtali við Víkurfréttir.