Fréttir

(Video) Könnun Gallup í Reykjanesbæ: Meirihlutinn vill álver
Miðvikudagur 1. febrúar 2006 kl. 16:55

(Video) Könnun Gallup í Reykjanesbæ: Meirihlutinn vill álver

Meirihluti íbúa Reykjanesbæjar eru hlynntir því að álver rísi í Helguvík samkvæmt símakönnun IMG Gallup sem gerð var um miðjan janúar.
Alls sögðust 66.5% þeirra sem afstöðu tóku vera frekar eða mjög hlynntir álveri í Helguvík, en alls svöruðu 505 bæjarbúar spurningunni sem hljóðaði svo: „Norðurál hefur sýnt áhuga á að reisa álver í Helguvík sem yrði knúið jarðvarmaorku frá Hitaveitu Suðurnesja. Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að reist verði álver í Helguvík?°
Heildarúrtak íbúa í könnuninni var 746 og svarhlutfall 71.3%.
Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, segir það eftirtektarvert hve skýr meirihluti í öllum aldurshópum og hjá báðum kynjum sé fylgjandi byggingu álvers í Helguvík. „Við hljótum að líta á þessa niðurstöðu sem mikilvægan stuðning í þeirri undirbúningsvinnu sem nú er í gangi í samstarfi við Reykjanesbæ og Norðurál um álver í Helguvík. Íbúar í Reykjanesbæ gera sér greinilega ljóst hve gríðarlegur styrkur tilkoma álversins yrði fyrir byggðararlögin hér og að sama skapi mundi stór hluti þeirrar umhverfisvænu orku sem hér verður til nýtast svæðinu beint."

Video: Sjónvarpsfrétt Víkurfrétta um könnunina. (.wmv)