Fréttir

Vill starfa áfram sem bæjarstjóri
Guðný María, Kjartan Már og Páll í myndveri Víkurfrétta.
Þriðjudagur 16. janúar 2018 kl. 14:47

Vill starfa áfram sem bæjarstjóri

-Guðný María Jóhannsdóttir, forstöðumaður hjá Isavia og einn af efnilegustu stjórnendum landsins, og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ rýna í tækifærin og áskoranirnar

Guðný María Jóhannsdóttir, forstöðumaður hjá Isavia og einn af efnilegustu stjórnendum landsins samkvæmt nýlegri úttekt, og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, hafa staðið í framlínunni á undanförnum árum. Guðný hjá Isavia sem er nokkurs konar móðurfyrirtæki í ferðaþjónustunni og Kjartan hjá Reykjanesbæ, sveitarfélagi sem hefur verið í sviðsljósinu vegna mikillar uppbyggingar en einnig vegna erfiðrar stöðu í fjármálum. Víkurfréttir og Sjónvarp VF fengu þau í spjall um nýliðið ár og um horfurnar á nýbyrjuðuðu ári.

 

Viðreisn
Viðreisn

Guðný, þetta hefur verið fordæmalaus aukning í komu ferðamanna til Íslands undanfarin ár. Hvernig var árið 2017 og hvernig leggst nýja árið í þig hvað þetta varðar?

Guðný: „2017 var mjög gott ár og mikill áframhaldandi vöxtur frá því sem verið hafði á árinu undan. Við erum að sjá svona prósentulega minni vöxt, þegar við horfum fram í næstu ár. Ef við horfum á starfsemina á Keflavíkurflugvelli þá hefur gengið mjög vel hjá okkar fólki að halda utan um þennan vöxt og takast á við hann. Við höfum stofnað nýjar deildir og við erum eitt af stærstu rútufyrirtækjunum á landinu í dag. Það hafa verið margar stórar áskoranir sem við höfum verið að takast á við en svona í heildina þá hefur gengið mjög vel. Auðvitað er sumarið alltaf stærsti tíminn hjá okkur og erfiðasti og þá tökum við á móti mikið af nýju starfsfólki. Heilt yfir var 2017 mjög gott ár og við horfum bara björt fram á nýtt ár. Við tókum á móti tæplega níu milljónum ferðamönnum í gegnum flugvöllinn á síðasta ári og við munum fara yfir tíu milljónir á þessu ári, ef allt gengur eftir. Við sjáum ekkert annað en að það eigi að standast. Það verður mjög spennandi. Ég hefði aldrei trúað því, ef þú hefðir talað við mig fyrir tíu árum síðan að við myndum taka á móti tíu milljónasta farþeganum í gegnum flugvöllinn á þessu ári, en það er að fara að gerast.“

Spjótin hafa oft beinst að ykkur fyrir það að vera ekki nógu fljót að þessu og hinu og hvernig ykkur gengur að þjónusta markaðinn og láta allt ganga í flugstöðinni. Ertu sátt með það hvernig þetta hefur gengið þrátt fyrir stöku gagnrýni?

Guðný: „Já, ég held það hljóti bara að vera eðlilegt að það komi einhverjar gagnrýnisraddir þegar við erum að fara í gegnum slík verkefni, en ég er alveg sannfærð um það að við erum búin að gera allt sem við getum til þess að gera það besta í stöðunni. Ég held það sé ekki bara Isavia, heldur öll fyrirtækin sem starfa á flugvellinum og það eru auðvitað líka fyrirtækin sem starfa í ferðaþjónustu almennt og í þjónustu, sem hafa lagt hönd í plóginn í því verkefni. Ég held við getum bara verið stolt af því. Við sjáum það að farþegarnir sem fara í gegn eru flest allir mjög ánægðir með þjónustuna. Flugfélögin eru ánægð með það sem við erum að gera. Auðvitað er alltaf hægt að gera betur, það geta allir gert betur, en svona heilt yfir þá erum við að gera mjög flotta hluti.“

Erum við að sjá áfram tuttugu og eitthvað flugfélög að fljúga til Keflavíkur á þessu ári?

Guðný: „Já, mér skilst að talan sem við erum með núna sé 29 sem verða hjá okkur næsta sumar. Þegar við tölum um sumar þá erum við alltaf að tala um þetta sumartímabil í fluginu sem er frá enda mars og út október. Við erum að fara að sjá núna tvö amerísk flugfélög bætast í hópinn, United og American Airlines. Svo ætlar S7, sem er rússneskt félag, að fara að fljúga inn til okkar, þannig það er bara mjög áhugavert að sjá hvernig þetta heldur áfram að þróast, en klárlega þá er Ísland á kortinu.“

Kjartan, þú sagðir á síðasta ári þegar vinnu lauk við aðlögunaráætlun Reykjanesbæjar og fjármálin að nú gætir þú farið að snúa þér að fleiru en hvað er eftirminnilegast frá árinu 2017 hjá þér?

Kjartan: „Það er nú margt sem kemur upp í hugann. Í fyrsta lagi er það að við kláruðum, í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, þessa svokölluðu aðlögunaráætlun sem er það plan sem sveitarfélagið, hver svo sem kemur að því að stýra því eða vera við stjórnvölinn, þarf að fylgja mjög ítarlega og strangt eftir til lok árs 2022. Það plan liggur nú fyrir, búið að samþykkja á öllum vígstöðum. Við erum þegar farin að vinna eftir því. Það stendur upp úr og samstaðan sem ríkti um þá vinnu, líka í bæjarstjórninni, alls staðar, bara frábært. Annað sem stendur upp úr er kannski þessi gríðarlega íbúafjölgun. Það eru vaxtarverkir hjá okkur eins og kannski hjá flugstöðinni, Isavia og fyrirtækjunum þar. Það eru líka vaxtaverkir hérna í sveitarstjórninni og sveitarfélögunum hér í kringum okkur. Það er fordæmalaus fjölgun íbúa á svæðinu og kallar á alls konar verkefni og viðfangsefni sem við erum bara á fullu að reyna að bregðast við og leysa. Það þriðja sem ég myndi vilja nefna er að Reykjanesskaginn var útnefndur einn af hundrað sjálfbærustu stöðum í heiminum á árinu síðasta. Það var mjög ánægjulegt fyrir okkur og það verður áskorun að standa undir þeirri útnefningu og reyna að viðhalda henni.“

Þú komst inn sem, eins og það var kallað, ópólitískur bæjarstjóri, eftir að sami meirihluti hafði verið í langan tíma með pólitískan bæjarstjóra. Þið þurftuð að taka á mörgum erfiðum málum út af þungri stöðu í fjármálum bæjarins, starfsmannamál, launamál og annað. Þegar þú horfir til baka, var þetta mjög erfitt?

Kjartan: „Þetta voru bara verkefni sem voru óhjákvæmileg og það þýðir ekkert að velta því fyrir sér hvort þau voru erfið eða hvort það var eitthvað framundan sem þú þurftir að hafa áhyggjur af. Þetta var óhjákvæmilegt og við fórum í alls konar endurskipulagningar og hluti sem eru að skila okkur því núna, ásamt náttúrulega auknum fjölda íbúa og þar með auknum tekjum. Þær tölur sem ég er að horfa á núna fyrir síðastliðið ár, 2017, sýna að grunnrekstur Reykjanesbæjar hefur aldrei verið betri heldur en á síðasta ári. Við erum að sjá mjög flotta útkomu út úr því og það kannski samanstendur af því að, eins og ég segi, tekjur hafa verið að aukast en við höfum verið að nýta innviðina betur þannig við höfum ekki enn þurft að leggja út í mikinn kostnað en það bíður handan hornsins, við vitum af því. Við erum að byrja byggingu nýs skóla í Innri Njarðvík sem mun kosta milljarða króna. Það bíða okkar alls konar fjárfestingar og til þess að geta farið í þær þá verður sveitarfélagið að vera rekið réttu megin við núllið, annars er þetta bara endalaus skuldasöfnun. Þannig getur maður ekki rekið sveitarfélag, heimili eða fyrirtæki til langs tíma.“

Guðný, hvernig hefur gengið hjá ykkur að huga að uppbyggingunni í samvinnu við sveitarfélögin? Nú hafa þau komið inn í ýmis mál. Hefur þetta ekki verið smá flækja eða gengur þetta bara mjög vel?

Guðný: „Ég myndi nú segja að þetta gangi nú bara mjög vel, en þetta er auðvitað ákveðin áskorun vegna þess að, eins og ég hef sagt, flugvöllurinn og starfsemin þar getur náttúrulega ekkert vaxið ef það er ekki fólk til að takast á við störfin og einhvers staðar þarf þetta fólk að búa. Það er alveg ljóst að þetta þarf allt saman að haldast í hendur. En við höfum átt samtal við sveitarfélögin þar sem við höfum verið meðal annars að draga fram, miðað við okkar farþegaspár og umferðaspár um flugvöllinn, hvað þetta þýðir í fjölda beinna starfa til þess að reyna að átta okkur á því hvað þetta þýðir varðandi innviði sem sveitarfélögin þurfa þá að undibúa. Mér finnst mikil breyting eftir að við fórum í þá vinnu, þá vorum við komin með ákveðinn grunn til þess að taka þetta samtal betur út frá. Það er auðvitað ákveðin áskorun að ná þessu jafnvægi þarna á milli, vöxturinn er svo mikill. Við höfum alveg heyrt þau sjónarmið að það sé erfitt að vera í sveitarfélagi og stýra sveitarfélagi sem vex svona hratt. Við þurfum öll að vera opin í samskiptum varðandi þetta og eiga eins gott samtal og við mögulega getum.“

Kjartan, þessi mikla fjölgun er búin að gerast mjög hratt og það hefur verið mjög mikil áskorun fyrir Reykjanesbæ og sveitarfélögin hérna í kring. Hvernig hefur gengið að taka á þessum málum?

Kjartan: „Það hefur bara gengið ótrúlega vel af mörgum ástæðum. Kannski sú fyrsta er að hér var mikið framboð af lausu húsnæði, sem er nú að mestu uppurið núna. Við vitum af því að fólk býr við kannski ósamþykktar og óviðunandi aðstæður í einhverjum tilfellum nú þegar en það er rosalega mikið í pípunum. Það eru margir að byggja og margir að undirbúa framkvæmdir þannig á næstu árum og misserum munu koma á markaðinn fjöldi íbúða af ýmsu tagi. Það er svona hvað varðar búsetuna. Varðandi þjónustuna, við erum svo heppin að við áttum talsvert pláss í skólum og leikskólum laus. Háaleitisskóli á Ásbrú er að stækka ört á hverju ári og við höfum náð að fjölga nemendum í öðrum skólum en um leið fórum við líka að reisa bráðabirgðahúsnæði á lóð nýja skólans í Innri Njarðvík og erum þar komin núna með yfir hundrað börn. Við erum svona að bregðast við og kannski ekkert ósvipað og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, að þegar aukningin verður svona mikil þá er maður alltaf einu skrefi á eftir, því miður. Það væri voða ákjósanlegt ef maður gæti verið einu skrefi á undan, en við bara erum einu skrefi á eftir. Það kemur fram kannski í þjónustunni að einhverju leyti líka. Við höfum séð umræður um að hér vanti félagslegt húsnæði. Við vitum um einhverja einstaklinga sem eru jafnvel húsnæðislausir o.s.frv. En þetta eru bara verkefni og áskoranir og við erum bara á fullu að reyna að ná í skottið í okkur í öllum þessum málum.“

Eitt af stóru málunum hérna fljótlega eftir hrun var mikið atvinnuleysi. Isavia hefur dregið til sín mikið af fólki og hafa mörg störf verið í boði hjá ykkur, meðal annars fyrir betur menntað fólk. Hvernig hefur þetta gengið Guðný, að ná í hæfileikaríkt fólk til starfa hjá félaginu?

Guðný: „Það hefur bara gengið ótrúlega vel. Við erum að byrja að undirbúa ráðningar fyrir þetta sumar. Þegar það kemur reyndar að sérfræðistörfum hefur verið þyngra að ráða í þau, en það hefur gengið miklu betur en við áttum von á. Síðasta sumar áttum við alveg eins von á að það yrði erfiðara að klára þessar ráðningar en það er spennandi að vinna á flugvellinum og fólk sækist í þetta. Það er einhver ástæða fyrir því að maður er búinn að vera þarna öll þessi ár.“

Það er talsvert af fólki héðan af svæðinu sem hefur komið til starfa, sem er kannski búið að ljúka námi, var að vinna á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar. Þið viljið auðvitað fá vel menntað fólk til starfa, sem vill búa á svæðinu og er héðan.

Guðný: „Klárlega. Stór hluti af okkar starfsfólki býr hérna á svæðinu og það er einmitt mjög jákvætt að fólk vilji setjast hér að og starfa þannig það sé sem styst frá vinnustaðnum sínum í staðinn fyrir að vera að keyra þennan rúnt á hverjum einasta degi. Nú erum við bara komin í þá stöðu að nú vantar húsnæði þannig það þarf bara að ná jafnvægi og þá næst allt saman, ég hef fulla trú á því.“

Kjartan: „Fyrirtækin í kringum flugið, bæði flugfélögin, flugstöðin, flugafgreiðslufyrirtækin og aðrir eru bara byrjuð að auglýsa eftir sumarfólki í fyrstu viku janúarmánaðar. Það má vel vera að það hafi gerst áður en ég minnist þess ekki. Mér finnst það vera vísbending um að það sé möguleg vöntun á fólki, en örugglega líka að það þarf að þjálfa fólk. Við höfum séð átak í því mjög víða, að það er verið að þjálfa og mennta, fólk þarf að byrja á námskeiðum mörgum vikum áður en það hefur störf o.s.frv. sem er allt hluti af því að bæta þjónustu og gera betur. En þetta vakti athygli mína.“

Það er mikil samkeppni um starfsfólk?

Guðný: „Gríðarlega samkeppni og við gerðum það í fyrsta skipti síðasta sumar að við lækkuðum aldurinn fyrir þá sem gátu hafið störf í öryggisleitinni hjá okkur, til þess að geta sótt í stærri hóp. Sum fyrirtæki á flugvellinum hafa farið erlendis og sótt vinnuafl, við höfum ekki gert það. En það er alveg ljóst að það að auglýsingarnar séu að koma svona snemma sýnir okkur að það er mikil samkeppni. Fyrirtækin eru svolítið að keppa um besta fólkið og að geta mannað öll þessi störf.“

Þú komst inn á það í ræðu sem þú fluttir á nýjársdag í Keflavíkurkirkju að útlendingarnir væru orðinn um fimmtungur af bæjarfélaginu Reykjanesbæ eða rúm 20%, það hlýtur að vera enn ein áskorunin fyrir ykkur að taka á því.

Kjartan: „Við erum það sveitarfélag sem er með stærsta hlutfall nýrra íbúa af erlendu bergi. Það eru áskoranir í því, ekki bara fyrir okkur og þessar fjölskyldur, heldur fyrir skólakerfið, fyrir leikskólana og fyrir í rauninni alla innviði og alla sem að málinu koma. Það er líka mikil áskorun fyrir fólk að flytja í nýtt land, þurfa að venjast nýjum siðum og kynnast nýju fólki, læra að rata á kerfið og allt þetta. Þannig þetta er heilmikil breyting fyrir allt og alla. Ég sagði það í ræðu minni í Keflavíkurkirkju á nýjársdag að mér fyndist við þurfa að gera betur. Það er mikil fjölgun í flugstöðinni og það er fyrirséð mikil aukning á störfum þar og við munum þurfa á erlendu vinnuafli að halda með einum eða öðrum hætti á þessu svæði um ókomin ár. Það er gríðarlega mikilvægt að fólk finni sig sem fyrst sem hluta af samfélaginu, að við tökum vel á móti því, tökum vel á móti börnum þessa fólks og að þau fái þá þjónustu sem við viljum geta veitt þeim.“

Þú þekkir þetta mál Guðný. Það eru mörg fyrirtæki í flugtengdri starfsemi sem hafa verið að gera þetta, hver er reynsla þín af því? Eruð þið með mikið af útlendingum í vinnu?

Guðný: „Við erum ekki með mikið af erlendum starfsmönnum, en þó eitthvað. En svona það sem ég hef heyrt og þekki til, varðandi það hvernig hefur gengið hjá þessum fyrirtækjum sem hafa farið út í það að fara erlendis og ráða, að þá hefur það gengið nokkuð vel. Auðvitað eru áskoranir sem fylgja þessu, fólk er að koma í nýtt land og við vitum það, við sem höfum flutt erlendis sjálf, hvernig það er. Það skiptir öllu máli að það náist samstaða meðal þessara fyrirtækja og sveitarfélaganna á svæðinu um að gera þetta sem allra best. Ég held við sjáum það öll að það er eitthvað sem við verðum að undirbúa, að þessum erlendu íbúum mun fjölga á þessu svæði og ég held það sé ekkert annað en tækifæri. Unga kynslóðin í dag vill búa í fjölmenningarlegu samfélagi. Ég held við eigum að horfa á þetta sem tækifæri, ekki áhyggjuefni. Þetta er klárlega áskorun en ég held að í þessu felist fullt af góðum hlutum og við eigum að vinna við það þannig og marka okkar stefnu út frá því.“

Kjartan, útlendingar eru að sinna mörgum störfum sem Íslendingar vilja ekki sinna.

Kjartan: „Það er svo margt í þessu, þetta er stór málaflokkur og það eru mjög margar hliðar. Okkur er ráðlagt, til dæmis af vinabæ okkar, Trollhättan í Svíþjóð, sem er búinn að ganga í gegnum þetta, við erum svolítið á eftir Norðurlöndunum hvað tímarás varðar, en það er að leggja áherslu á börnin, að þeim líði vel og koma þeim í gott samband við vini og kunningja, koma þeim í skóla, kenna þeim íslensku, koma þeim í íþrótta- og tómstundastarf. Við þurfum að gefa þeim tækifæri á því að lifa svona eðlilegu lífi sem börn og ef þau eru ánægð þá verða foreldrarnir ánægðir og þá gengur allt betur. Við munum meðal annars leggja áherslu á það að hugsa vel um móttöku barna.“

Ertu sammála því Guðný? Gríðarlega mikilvægt þar sem við þurfum að reiða okkur á þetta fólk.

Guðný: „Algjörlega og það er mikilvægt að virkja okkur sem íbúa til að taka á móti þessu fólki. Ég get til dæmis tekið það á mig sem fjölskylda að kynnast einni fjölskyldu. Þegar maður fór sem skiptinemi þá fékk maður einhvern sem leiddi mann svolítið og hjálpaði manni að komast inn í samfélagið. Það er líka tækifæri í því að virkja okkur íbúa í svona verkefni, að líta á þetta sem tækifæri og leið til þess að öðlast nýja sýn, læra eitthvað nýtt og þroskast.“

Hver verða brýnustu málin í Reykjanesbæ 2018?

Kjartan: „Það eru náttúrulega sveitastjórnarkosningar í vor. Brýnasta verkefni í Reykjanesbæ núna árið 2018 og næstu ár er að halda vel á spöðunum, að keyra ekki fram úr sér og ætla sér ekki um of, halda þessari aðlögunaráætlun sem mikil vinna hefur farið í að búa til. Svo eru mörg önnur verkefni, eins og þessi nýi skóli í Innri Njarðvík, Stapaskóli, sem við erum að hefja framkvæmdir við og þetta, hvernig við ætlum að taka á móti þessum gríðarlega fjölda ef þessi aukning bæjarbúa heldur áfram. Þá er mjög stutt í að við verðum um átján þúsund og það er mjög stutt í að við verðum stærri en Akureyri og verðum þá fjórða stærsta sveitarfélag landsins. Það eru mörg verkefni sem fylgja því, uppbygging ferðaþjónustu, uppbygging húsnæðis og hverfa, skipulagsmál, undirbúningur framkvæmda, það er á mörgu að taka.“

Hefðurðu áhuga á að starfa áfram sem bæjarstjóri í vor, sama hvaða meirihluti verður í nýrri bæjarstjórn?

Kjartan: „Ég hef nú verið spurður að þessu og er svo sem að velta því fyrir mér núna. Ég held ég verði að svara því játandi, ég er alveg til í það. Við erum úti í miðri á. Ég held að það gæti bara verið af hinu góða að menn fengju að klára það verkefni. Auðvitað er það svo undir því komið hverjir verða í meirhluta, hvort þeir kæri sig um að hafa mig eða einhvern annan, það verður bara að koma í ljós, en ég er til.“
Guðný, þú varst valin einn af fjörtíu efnilegustu stjórnendum landsins sem er skemmtilegt. Hvernig upplifir þú það, verandi stjórnandi í stóru fyrirtæki?

Guðný: „Nei, mér finnst þetta bara mjög skemmtilegt. Mér finnst það vera að breytast svo mikið hvernig við nálgumst stjórnun. Við erum alltaf einhvern veginn að fara nýjar leiðir, við tölum meira um það að vera leiðtogar, að leiða fólkið okkar og hvernig við nálgumst það að komast að bestu niðurstöðunni hverju sinni. Það kom mér skemmtilega á óvart að vera á þessum lista og ég hef oft spurt mig í gegnum tíðina hvort maður vilji vera stjórnandi alla tíð eða hvort maður vilji gera eitthvað annað, því lífið er bara ansi stutt. Þetta er mjög áhugavert og mjög skemmtilegt. Ég var á flugvellinum þegar við förum í gegnum hrunið og hef svo fengið að taka þátt í þeirri vegferð sem það hefur verið síðan þá. Þetta er náttúrulega búið að vera ævintýri og ég er mjög þakklát fyrir það á hverjum degi að hafa fengið að taka þátt í þessu. Það er náttúrulega langt frá því að vera sjálfgefið, að vera með þetta í reynslubankanum. Auðvitað eru sumir dagar erfiðari en aðrir, það er bara oft þannig, en þetta eru allt saman skemmtilegar áskoranir og ég held, að ef við berum okkur saman við tækifæri sem aðrir hafa, þá eru tækifærin okkar bara miklu meiri og stærri og við þurfum bara að þora að trúa því. Við eigum að þora að sjá þau. Það er það sem ég horfi á sem skemmtilegasta verkefnið á árinu 2018 og árunum sem eru framundan. Ég segi alltaf að næsta borg á Íslandi, hún byggist hér, við erum að fara að byggja hana, við Kjartan.

Kjartan: Framtíðin er ótrúlega björt og það eru ótrúlega mörg tækifæri hérna á svæðinu. Við þurfum núna að negla niður sýn á þau verkefni og það ástand sem við við viljum fram á næstu árum. Það er margt sem bendir til þess, allar tölur og spár, að við verðum þrjátíu þúsund á þessu svæði fyrr en varir og fyrr heldur en við áttum okkur á. Það er bara spennandi.

Eitthvað sérstakt framundan, Guðný, sem fjölskyldan ætlar að gera á árinu?

Guðný: „Við ætlum bara að halda áfram að þakka fyrir hvern dag sem við fáum og njóta þess að vera saman. Börnin mín eru núna að verða átta og tólf ára þannig nú eru þau að verða svona almennilega ferðafær. Við eigum mikla drauma um að fara að ferðast á fjarlægari slóðir með þau en jafnframt líka innanlands og á mína heimahaga sem eru fyrir norðan. Ég held það sé bara áframhaldandi markmið að njóta hvers dags en svo á ég mér svona persónulegt markmið og það er að nú er komið að því að fara að veiða lax sem er yfir hundrað sentimetrar. Hann á eftir að koma á.“

Kjartan: „En þú verður að sleppa honum.“

Guðný: „Já, ég sleppi öllu. Hann fær frelsi sko. En ég held að það sé komið að því núna. Það verður markmið sumarsins í veiðinni.“

Kjartan: „Ég veiddi fyrsta flugulaxinn í fyrrasumar. Ég á mér aðeins svona hófstilltari markmið hvað það varðar, ég væri voða glaður ef ég næði sextíu sentimetrum á næsta ári. Minn var fimmtíu og sjö. Hann var flottur og smakkaðist vel, ég þurfti ekki að sleppa honum, ég spændi hann í mig. En það eru fullt af skemmtilegu framundan, ferðalög og fleiri barnabörn. Það er margt skemmtilegt í pípunum. Maður er fyrst og fremst þakklátur fyrir allt. Það eru allir af manns nánustu heilbrigðir og við höfum ekki yfir neinu að kvarta. Ég vona bara að árið 2018 verði okkur öllum, fjölskyldum okkar allra, bara hagfellt og ánægjulegt.“