Langbest - velkomin
Langbest - velkomin

Íþróttir

Ætla mér að nýta þetta tækifæri til fulls
Ólafur í leik með Grindvíkingum
Sunnudagur 19. apríl 2015 kl. 09:00

Ætla mér að nýta þetta tækifæri til fulls

Körfuknattleiksmaðurinn Ólafur Ólafsson er á leið í atvinnumennsku í Frakklandi

Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindvíkinga í körfuknattleik, ákvað á dögunum að endursemja ekki við uppeldisfélag sitt og hefur þess í stað tekið þá ákvörðun að reyna fyrir sér í atvinnumennsku næsta tímabil. Ólafur hefur verið einn af burðarásum liðs síns síðustu ár og hefur leikið allan sinn feril með Grindavík að undanskildu einu tímabili þegar hann lék í Þýskalandi árið 2008. Einnig hefur hann verið í A-landsliðshóp síðustu ár og er inni í myndinni að hann leiki með landsliðinu á Evrópumótinu sem fram fer í haust, vinni hann sér inn sæti. Íþróttadeild Víkurfrétta setti sig í samband við Ólaf og vildi forvitnast meira um hvernig þetta næsta skref leggst í hann og hver forsaga málsins er.

Hvernig kom það til að þú semur við St Clement í frönsku NMT2 deildinni?

Það kom til strax eftir áramót þegar umboðsmaður minn hafði samband við mig og sagði mér að það væri áhugi hjá þeim að fá mig fyrir næsta tímabil. Þá fór þetta svona almennilega af stað. Svo eftir að við duttum út á móti KR í 8 liða úrslitum þá fæ ég samning sendan frá umboðsmanninum og fljótlega uppúr því skrifa ég undir hjá þeim. Eftir páska fæ ég sent frá umboðsmanninum að það sé allt klappað og klárt. Þetta gerðist allt saman mjög fljótt og er ég mjög ánægður með niðurstöðuna.

Varstu búinn að ganga um með atvinnumannadrauminn í hausnum í einhvern tíma?

Mig hefur allaf dreymt um að fara út í atvinnumennsku og reyndi að fara út á síðasta tímabili en það kom ekkert spennadi inn á borð til mín þannig ég skrifaði undir hjá Grindavík. Mig hefur dreymt um þetta síðan ég var krakki þegar maður var að horfa á NBA og svo þegar maður varð eldri fór maður að fylgjast með Evrópuboltanum og heillaðist hrikalega af þessu og nú er atvinnumannadraumurinn orðinn að veruleika.

Af hverju Frakkland?

Frakkland er mikil körfuboltaþjóð og er góður körfubolti spilaður þar, þannig að þetta heillaði mig strax. Um leið og ég fékk tilboðið varð ég strax spenntur fyrir þessu. Bræðrum mínum og pabba fannst þetta of gott til að vera satt til að byrja með en svo varð þetta allt að veruleika og erum við öll fjölskyldan mjög spennt fyrir komandi tímabili.

Hvernig gengur svona lagað fyrir sig, þ.e. að finna sér lið, allt ferlið í kringum samningaviðræður og þar fram eftir götunum?

Þetta gengur þannig fyrir sig að maður kemst í samband við umboðsmann og sendir honum myndbandsupptökur af leikjum hjá sér. Það þarf að klippa saman efnið og heilmikið vesen og svo sendir maður það út til umboðsmanns og svo sér hann um að finna lið sem gæti haft áhuga. Þegar liðið er komið inn í myndina með áhuga set ég svo inn það sem ég vill hafa í samningnum mínum og þeir gera vonandi það sem maður biður þá um. En svo er þetta mikil bið og maður er alltaf að senda á umboðsmanninn hvort eitthvað sé að frétta af þessum málum. 

Hversu stórt stökk upp á við er að fara úr Domino´s deildinni í NMT2 deildina?

Ég hef fengið þær upplýsingar að þetta sé betri deild en hérna heima. Það er mikið af eldri leikmönnum frá Frakklandi sem eru búnir að vera spila í efstu deild í Frakklandi og annars staðar sem fara í NMT1 og NMT2 deildina og spila síðust árin sín þar, í bland við unga Franska leikmenn sem eru lánaðir úr efri deildum þar í landi. Ég tel þetta vera stórt stökk fyrir mig og tækifæri til að koma mér á framfæri og bæta minn leik.

Hvernig er tilfinningin að vera að fara að yfirgefa heimabæinn Grindavík og fara út fyrir þægindarammann í eitthvað alveg splunkunýtt og framandi?

Hún er bara góð og það er mikill spenningur í gangi hjá manni. Ég hef farið út áður þegar ég fór til Þýskalands árið 2008. Þá fékk ég smjörþefinn af því hvernig atvinnumennskan er og það hjálpaði mér mikið í þessu ferli. Ég væri ekki sá leikmaður sem ég er í dag ef ég hefði ekki farið þangað því það tók minn leik á næsta level. Í framhaldinu stóð ég mig vel hér heima og núna er ég að taka næsta skref á ferlinum með því að fara til Frakklands og það er bara spennandi verkefni sem ég ætla að taka með trompi. Þannig að það er svo sem ekkert nýtt fyrir mér að fara aðeins út fyrir þægindarammann.

Hefurðu farið eitthvað út og kíkt á aðstæður hjá félaginu?

Það stóð til að fara út og heimsækja klúbbinn í febrúar eða mars á þessu tímabil en það varð ekkert úr því en ég er búin að vera afla mér upplýsinga um félagið og bæinn sem ég kem til með að búa í. Það sem ég hef séð hingað til lítur vel út, maður veit samt aldrei alla söguna en það á öruglega eitthvað eftir að koma mér á óvart en það er bara skemmtilegt.

Ferðu einn út eða verður kærastan með í för?

Ég tek kærustuna með út og erum við rosalega spennt fyrir þessu, hún spenntari en ég ef eitthvað er. Það skiptir miklu máli að hafa einhvern með sér í þessu heldur en að vera einn alla daga. Það á eftir að hafa mikla þýðingu að hafa þessa elsku með mér í þessu.

Hvernig er franskan hjá þér?

Franskan er ekkert rosalega góð hjá mér og hef ég heyrt að Frakkar séu ekkert mikið fyrir að tala ensku en ég reyni kannski að læra þetta helsta svo maður geti bjargað sér úti í búð og svona. Vonandi verður maður orðinn nokkuð fær í þessu eftir tímabilið.

Ertu með eitthvað plan varðandi sumarið? Ákveðna þætti sem þú ætlar að vinna í í þínum leik og styrkja áður en þú mætir á svæðið? Hvar finnst þér þú þurfa að bæta þig?

Planið er að æfa vel, bæði körfubolta og lyftingar. Það er allaf hægt að bæta sig á öllum sviðum og ætla Jóhann bróðir minn og Gunnar Einarsson, einkaþjálfari og leikmaður Keflavíkur, að hjálpa mér í allt sumar. Mér finnst ég þurfa að bæta knattrakið mitt og ákveðnar hreyfingar í kringum það sem Jóhann ætlar að taka að sér að stjórna. Hann setur upp æfingar og ég framkvæmi af krafti. Gunni veit svo alveg hvað hann syngur og á hann eftir að hjálpa mér mikið með styrktarþjálfunina.

Nú er farið að styttast í Evrópumót landsliðiða sem fram fer í september. Hvernig meturðu möguleika þína á að vinna þér inn sæti í liðinu?

Ég á fullt erindi þangað eins og allir aðrir sem gefa kost á sér. Ég undirbý mig fyrir það verkefni af krafti og kem mér í mitt besta stand fyrir verkefnið. Það er alltaf heiður að fá að vera í landsliðinu og spila fyrir þjóð sína. Mér finnst það skemmtilegasti tíminn á sumrinn að vera í landsliðinu og innan um alla þessa stráka þar. Þetta eru allt topp eintök og náum við allir vel saman og erum miklir vinir.

Telurðu að sú staðreynd að landsliðið hafi unnið sér inn sæti á Evrópumótinu hafi haft áfrif á það hvernig leikmenn nálguðust tímabilið sem nú er líða undir lok?

Já mjög mikið. Það gaf mönnum klárlega mikið ,,boozt”  að við komust á EM og ég held að menn hafi lagt meira í sumaræfingar og reynt að rísa hærra á tímabilinu vegna þess. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta þróast.

Hver er þín sýn á íslenskan körfubolta í dag? Finnurðu fyrir því að menn sæki meira í að komast út í atvinnumennskuna eða í háskólaboltann?

Ég tel að KKÍ þurfi að gera breytingar á reglum um erlenda leikmenn og fara aftur í 2+3 regluna. Mér hefur fundist gæðin hafa minnkað töluvert síðan 4+1 reglan var tekin í gildi. Það er kannski ekkert að 4+1 reglunni þannig lagað en ef gæðin eiga að aukast þurfum við að breyta þessu aftur en það er auðvitað bara mín skoðun. Annars held ég að framtíðin sé björt í íslenska körfuboltanum, fullt af spennandi og efnilegum strákum og stelpum að koma upp. Sum hver eru orðin virkilega góð og það er mögulega 4+1 reglunni að þakka þar sem aukinn spilatími fyrir íslenska leikmenn fylgir henni, en ég vil samt breyta reglunni til baka í 2+3.

Hversu fjarlægt er það fyrir íslenska krakka að láta svona drauma verða að veruleika í dag?

Það er allt hægt ef maður ætlar sér eitthvað en þetta er mikil vinna og krakkarnir þurfa að skuldbinda sig meira og meira þegar þau verða eldri. Þetta er ekki auðvelt en ef þú ert tilbúinn að leggja mikið á þig og fórna öðrum hlutum í staðinn þá getur ýmislegt gerst á körfuboltavellinum í framtíðinni.

Nú blæðir þér nánast gulu og þú ert mikill heimamaður. Hvernig hefur þú upplifað feril þinn með Grindavík hingað til í gegnum súrt og sætt?

Ég hef upplifað heilmikið með Grindavík, bæði góða og slæma tíma. Ég varð Íslandsmeistari 2012 og svo aftur 2013 ásamt því að verða bikarmeistari með liðinu í fyrra. Þetta er það sæta sem ég tek frá Grindavík. Tímabilið í fyrra var dæmi um slæma tíma þ.e. að geta ekki klárað það með íslandsmeistaratitli en bikarmeistaratitillinn bætti það aðeins upp. Svo var það þetta tímabil sem er að líða þar sem að gekk á ýmsu hjá okkur og það var mjög svekkjandi að detta út í 8 liða úrslitum á móti KR, 3-0. Ef það er eitthvað lið sem ég held að gæti unnið KR þá fannst mér það vera við. Ef við hefðum ekki verðið svona miklir sauðir og tapað öðrum leiknum þá hefði þetta þróast allt öðruvísi held ég. En þeta sýnir bara hversu vel spilandi og vel þjálfaðir KR-ingar eru. Þeir eru einfaldlega með besta liðið í dag. Aftur á móti ef ég lít yfir farinn veg þá eru þetta held ég 5 bikarúrslitaleikir og 3 lokaúrslit Íslandsmóts sem ég hef tekið þátt í með Grindavík. Það tel ég vera góðan árangur. Að öðru leyti er ég ánægður með allt sem ég hef gengið í gegnum með Grindavík.

Hefur Grindavík sem klúbbur sýnt þér stuðning og skilning varðandi þessa ákvörðun þína að leika ekki með liðinu á næsta tímabili?

Já það hafa þeir svo sannarlega gert. Þeir vissu að ég væri stórt spurningamerki eftir tímabilið hvað varðar áframhaldið og þeir eru sáttir með að fá nægan tíma til að fylla mitt skarð. Þú finnur ekki marga klúbba á Íslandi þar sem eru jafn hæfir einstæklingar að vinna á bakvið tjöldin eins og í Grindavík. Þetta gera þau í sjálfboðavinnu og eiga mikið hrós skilið fyrir alla þá frábæru vinnu sem þau leggja í þetta. Ef leikmaður vill spila fyrir alvöru klúbb, með allt tip top, sem stendur við allt það sem lofað er þá er Grindavík staðurinn. Það er bara þannig og ég veit að ég er ekki einn um þessa skoðun.

Hvernig sérðu næstu 5 ár hjá þér í körfunni? Ertu búinn að setja þér einhver langtímamarkmið?

Ég er búinn að setja mér það markmið að taka bara eitt ár í einu, æfa eins og óður maður og sjá hvert það skilar mér. Það er ekki í kortunum hjá mér að spila á Íslandi næstu 5 árin svo ég ætla að nýta mér þetta tækifæri til fulls, það er bara þannig!