Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Íþróttir

Ætlar að koma mun sterkari til baka
Laugardagur 9. nóvember 2013 kl. 11:00

Ætlar að koma mun sterkari til baka

- Njarðvíkingurinn Maciek Baginski jafnar sig af einkirningasótt

Njarðvíkingurinn Maciek Baginski verður frá keppni í körfuboltanum fram yfir áramót. Ástæðan fyrir fjarveru hans frá vellinum er sú að hann smitaðist af einkirningasótt. Maciek segist hafa fundið fyrir því að hann hafi verið slappur, líkt og hann væri að fá flensu, fyrir tæpum mánuði síðan. Maciek fór í blóðprufu hjá HSS og ekkert óvenjulegt kom út úr blóðprufunni þá, þó svo að lækninn hafi grunað að um einkirningasótt væri að ræða. Heilsunni hrakaði og Maciek fór til Reykjavíkur þar sem kom í ljós að hann þjáðist af einkirningasótt.

„Ég vissi þetta nánast á undan læknunum. Vinur minn hafði þjáðst af einkirningasótt og ég hafði lesið mér til um þetta. Ég var hræddur um að þetta væri raunin.“ Maciek segir að engin ástæða sé þó til þess að óttast sóttina. Fyrst og fremst sé hún til ama því langan tíma tekur að jafna sig. „Þetta eru bara leiðindi. Það eru ekki til nein lyf við þessu og líkaminn verður að búa til sín eigin mótefni.“ Eftir að hafa smitast einu sinni þá fær viðkomandi ekki sóttina aftur. Smit getur átt sér stað með ýmsum hætti, en m.a. getur veiran borist með andrúmsloftinu. Einkenni einkirningasóttar eru bólgnir hálskirtlar, hiti, mikil þreyta og slappleiki, verkir í vöðvum, höfuðverkur og svitaköst.

Mikil vinna að baki – aftur á byrjunarreit

Maciek lagði hart að sér í sumar við æfingar og var kominn í fanta form þegar tímabilið í körfuboltanum hófst fyrir skömmu. Sú vinna virðist nú hafa farið í súginn því það tekur langan tíma fyrir líkamann að safna upp fyrri orku. „Ég er nánast búinn að missa allan vöðvamassa og má ekkert hreyfa mig. Ég er kominn aftar en ég var fyrir sumarið hvað formið varðar, maður þarf nánast að byrja upp á nýtt,“ segir körfuboltamaðurinn ungi. Honum líður nokkuð vel að svo stöddu og segist varla finna fyrir neinum slappleika. Hann viðurkennir að þetta taki þó á andlega. „Maður þarf bara að sætta sig við þetta og ákveða hvað maður ætlar að gera í framhaldinu. Ég ákvað strax að ég ætlaði að koma sterkari til baka,“ segir Maciek sem ætlar þó að gefa sér nægan tíma til að jafna sig og ná fyrri styrk. Það sé ekki til neins að ana að neinu þegar heilsan er annars vegar.

Félagarnir í körfunni og íbúar í Njarðvík hafa sýnt honum fullan stuðning og stöðugt er verið að spyrja hann hvenær hann mæti aftur til leiks. Nú er beðið eftir niðurstöðum úr rannsóknum þar sem skoðað var hvort miltað og lifrin hefðu bólgnað. Ef svo er gætu þessi líffæri sprungið eða skaddast við líkamleg átök. Þess vegna ber að forðast að stunda íþróttir eða reyna mikið á líkamann. Ef þær rannsóknir sýna að líffærin hafi ekki bólgnað þá má Maciek byrja að hreyfa sig aftur. Fari svo að líffærin hafi bólgnað þýðir það að lengri tíma taki að jafna sig. Maciek á líklega nokkuð langt í land með að ná fullum krafti en það getur tekið nokkurn tíma, allt frá tveimur til sex mánuðum. Maciek segist sjálfur búast við því að hefja æfingar að fullu í lok janúar.

Njarðvíkingar hafa byrjað tímabilið nokkuð vel en á dögunum töpuðu þeir naumlega fyrir grönnum sínum frá Keflavík. Maciek segir það hafa verið sérstaklega erfitt að sitja á bekknum í þeim leik og geta ekki aðstoðað félagana. „Ég hef aldrei verið jafn stressaður á ævinni og fyrir þann leik. Að geta ekki gert neitt í leiknum er eitt það versta sem getur komið fyrir mann, sérstaklega í svona stórum leik. Ég titraði og svitnaði allan leikinn.“ Njarðvíkingar urðu fyrir öðru áfalli í sömu viku og í ljós kom að Maciek var með einkirningasótt. Þá varð Snorri miðherjinn Hrafnkelsson fyrir því óláni að slíta krossband í hné. „Þetta var hræðileg vika fyrir okkur. Við erum sem betur fer með breiðan hóp að mínu mati,“ segir Maciek að lokum.

[email protected]