Heklan
Heklan

Íþróttir

Ætlar að verða besti þjálfari í heimi
Þriðjudagur 27. maí 2014 kl. 10:56

Ætlar að verða besti þjálfari í heimi

- Keflavík í fremstu röð á Norðurlöndum

Ísland varð Norðurlandameistari í taekwondo í fyrsta sinn um á dögunum. Keppnin fór fram í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ. Suðurnesjamenn voru afar sigursælir á mótinu og eignuðust alls sjö Norðurlandameistara um helgina. Alls voru 20 keppendur frá Suðurnesjum og unnu þeir allir til verðlauna.

Þjálfari Keflvíkinga, Helgi Rafn Guðmundsson, hefur unnið gríðarlega óeigingjarnt og metnaðarfullt starf sem aðalþjálfari taekwondodeildar Keflavíkur. Þegar hann kom til starfa sem yfirþjálfari rétt rúmlega tvítugur árið 2006 setti hann sér umsvifalaust háleit markmið. „Ég ætlaði mér að gera Keflavík að besta félagi Íslands. Við settum niður fullt af markmiðum sem við höfum verið að ná. Svo hugsuðum við að fyrst við gætum orðið besta félag á Íslandi, af hverju gætum við þá ekki orðið besta félag á Norðurlöndum? Ég gerði margar vitleysur þegar ég byrjaði. Ég hélt að ég kynni allt, en svo sér maður þegar árin líða hvað maður vissi rosalega lítið. Maður á líka svo mikið eftir ólært og það er virkilega spennandi að hugsa til þess.“ Líklega mætti segja að Keflavík sé nú þegar í fremstu röð á Norðurlöndum enda besta félag landsins og kjarninn í landsliði Norðurlandameistara Íslands. „Þetta er svo gott fyrir sjálfstraustið hjá okkur. Hér eru að koma keppendur frá mun stærri löndum og við frá smábæjum á Suðurnesjum erum að baka þau,“ segir Helgi kokhraustur. Hann segir að stemningin á mótinu hafi verið frábær. „Þarna var auðvitað fólk frá öllum Norðurlöndunum og fjöldinn allur af Íslendingum, það var bara fullt hús.“

Ótrúleg sókn taekwondo á Suðurnesjum

Eins og flestu íþróttaáhugafólki er nú sjálfsagt orðið kunnugt um, hefur taekwondo verið í gríðarlegri sókn á Suðurnesjum. Íþróttamaður Reykjanesbæjar kemur úr þeirra röðum, sömuleiðis íþróttafólk Keflavíkur. Íþróttamaður Sandgerðis undanfarin tvö ár hefur verið taekwondomaður og íþróttamaður úr röðum taekwondo hefur einnig verið kjörinn íþróttamaður Grindavíkur. Árangurinn hefur ekki orðið til á einni nóttu en mikil vinna býr að baki. „Þetta er skipulagt og metnaðarfullt starf. Við leggjum upp með að hlutirnir séu vel gerðir. Við viljum búa til góða karaktera. Það er lykilatriði að foreldrar séu með í starfinu. Það er svo gífurlega mikilvægt að fá góðan stuðning heiman frá,“ segir Helgi varðandi árangur unga íþróttafólksins.

„Ég ætla að verða besti þjálfari í heimi. Þetta er bara fórnarkostnaðurinn. Ég er búinn að sjá hvað þarf til og að ég hef getuna til þess“

Helgi er sjálfur hógvær þrátt fyrir að spila stóra rullu í þessum árangri. Hann segist ekki hafa getað beitt sér í þjálfun af þessum krafti ef það væri ekki fyrir fjölskyldu hans. „Konan mín er fyrrum afrekskona í taekwondo og hún skilur alveg hvað ég er að ganga í gegnum,“ segir Helgi en Rut Sigurðardóttir kona hans er margfaldur Norðurlanda- og Íslandsmeistari í íþróttinni. Líklega eru fáir þjálfarar sem leggja jafn mikið upp úr skipulagi og Helgi sem segir að þjálfunin krefjist athygli hans nánast allan sólarhringinn. Aðspurður að því af hverju hann sé tilbúinn að leggja svo mikið í þjálfun ungmenna hér í bæ, þá stendur ekki á metnaðarfullu svari Helga. „Af því að ég ætla að verða besti þjálfari í heimi. Þetta er bara fórnarkostnaðurinn. Ég er búinn að sjá hvað þarf til og að ég hef getuna til þess. Nú er ég bara að vinna mig upp stigann.“

Mörg þeirra hreinlega alist upp hjá Helga

Hversu mikilvægt hefur það verið fyrir íþróttina að fá aukna umfjöllun og athygli? „Það er gífurlega mikilvægt. Ég hef reynt að koma því að hjá mínum iðkendum að tala vel um íþróttina sína. Gefa þeim þá ábyrgð að vera góðar fyrirmyndir og sterkir og heilsteyptir einstaklingar. Maður er svo snortinn yfir þeim viðurkenningum sem taekwondo krakkarnir hafa verið að hljóta.“ Helgi segir að ennþá sé íþróttin í hópi jaðaríþrótta en vakningin virðist vera að gera vart við sig í bardagaíþróttum. „Fullt af krökkum eru að koma til okkar, einmitt vegna þess að umfjöllunin er orðin meiri og umtalið almennt jákvætt um starfið.“

Næsta skref fyrir Helga væri líklega að taka þátt í starfi landsliðsins eða hugsanlega þjálfa erlendis. „Ég hef mikinn áhuga á starfi hjá landsliðinu þar sem miklir möguleikar eru fyrir hendi. Það er hins vegar ekki mín ákvörðun að taka. Varðandi starf erlendis þá gæti ég eiginlega ekki hugsað mér að fara frá félaginu eins og staðan er núna. Þarna er fólk sem ég hef þjálfað frá því að þau voru að byrja í grunnskóla nánast. Þau eru núna orðnir þessir karakterar sem maður hefur lagt upp með að stuðla að.“ Helgi segir að samband hans við iðkendur sé ansi náið og oft á tíðum sé þetta eins og samband ættingja. „Með flest þetta fólk þá líður mér ekkert öðruvísi en gagnvart ættingjum mínum. Mörg þeirra eru búin að alast upp hjá manni.“