Ættarmót fótboltans í Sandgerði
Baráttan um bæinn þegar norðurbær og suðurbær mætast
Mikilvægasti knattspyrnuleikur ársins í Sandgerði fer jafnan fram á Sandgerðisdögum. Ekki er um að ræða leik hjá Reynismönnum heldur eru það hverfin sem etja kappi. Keppni milli bæjarhluta í fótbolta á árum áður þótti stórviðburður og æfðu menn á grasblettum um allan bæ þar sem grasrót framtíðar Reynismanna varð til. Stofnuð voru hverfalið í Sandgerði á sínum tíma. Í norðurbæ var það Vír Football Club sem réð ríkjum en Elding United hélt merkjum suðurbæjar á lofti.
Jónas Þórhallsson man þá tíð þegar raunverulegur rígur ríkti milli norður- og suðurbæjar í Sandgerði. „Sagan segir að í kringum 1965 hafi verið að koma á markað prjónavélar sem gátu prjónað sokka. Ég man að það var ein saumakona á Brekkustíg í norðurbænum þar sem ég bjó og svo var önnur, Guðrún skólastjórafrú, sem prjónaði í suðurbænum. Ég veit ekki hvort að þetta var upphafið að þessu en menn fóru í það minnsta að búa til hverfalið í fótboltanum sem gjarnan klæddust mismunandi sokkum,“ rifjar Jónas upp.
Enginn leikskóli og margir í fótbolta
„Það var þarna blettur sem ól upp heila kynslóð í Sandgerði. Það var enginn leikskóli og þarna vorum við að leik fram yfir miðnætti á sumrin. Það var smá hlé þegar það var kallað í mat.“ Mikil gróska var í bænum í þessa tíð og urðu þarna til margir frambærilegir knattspyrnumenn sem seinna meir létu að sér kveða. Leikir á milli bæjarfélaganna tíðkuðust á þessum árum þar sem allt var lagt í sölurnar. „Þetta var ótrúlegt alveg í minningunni,“ segir Jónas sem fékk þá hugmynd að endurverkja leikinn árið 2008. Síðan þá hefur leikurinn farið fram á Sandgerðisdögum. Eftir leik er svo safnast saman og borðað og peningum safnað fyrir knattspyrnufélagið Reyni. Segja mætti að þetta séu óformlegir endurfundir þeirra sem tengst hafa félaginu í gegnum tíðina.
Jónas segir að norðurbær hafi verið sterkari fyrstu árin eftir að leikurinn var endurvakinn en síðustu ár hafi hallað á þann bæjarhluta þar sem öll uppbygging í Sandgerði á sér stað í suðurbænum. „Það skiptir öllu máli að hafa montréttinn þegar upp er staðið og menn eru stoltir yfir sigri í leikslok. Það er stutt í barnsandann og mikil gleði í þessum leikjum,“ bætir hann við. Þarna eru keppendur á öllum aldri sem reima á sig takkaskóna og það ætlar Jónas að gera á föstudaginn. „Það er ekki spurning um hverjir sigra á föstudaginn, það er norðurbærinn,“ segir Jónas og hlær.
Förum illa með norðurbæingana
Suðurbæingurinn Jón Bjarni Sigursveinsson telur að norðurbæingar hafi búið vel í gegnum árin með því að hafa mikla keppnismenn innan sinna raða. „Þeir hafa kannski verið að taka þetta með aðeins meiri alvöru en við,“ segir Jón léttur í bragði. „Ég er þó smeykur um að við förum illa með þá á föstudaginn,“ bætir hann við. „Það var mikill rígur í gamla daga. Ég man að frændi minn bjó alveg á mörkunum en datt þó inn í norðurbæinn. Það var mikill rígur okkar á milli,“ segir Jón en hann telur að þessir leikir hafi verið sérstaklega þýðingarmiklir vegna þess að ekki var mikið um kappleiki á þessum tíma og því meira um að keppt hafi verið á milli bæjarhluta. Suðurbæingar eru nokkuð fleiri en þeir í norðri og hafa þeir því séð aumur á grönnum sínum og veitt þeim liðstyrk. „Það er nú vandamálið að byggðin er ekkert að stækka í norðri þannig að við höfum þurft að lána þeim menn til þess að jafna þetta út,“ segir Jón og hlær. Leikar hefjast klukkan 16:00 í dag föstudag og munu keppendur sem skráðu sig til leiks í vítaspyrnum hefja keppni. Þar næst fer fram leikur gæðinga, þar á eftir fara fram tveir leikir trippa og fola á sama tíma.