Ástrós íþróttakona ársins í taekwondo
Þriðja árið í röð
Ástrós Brynjarsdóttir úr Keflavík, hefur verið valin íþróttakona ársins 2014 í taekwondo. Þetta er þriðja árið í röð sem Ástrós hlýtur þessa viðurkenningu.
Ástrós sem er aðeins 15 ára, er ein efnilegasta taekwondokona heims og eini Íslendingurinn sem hefur keppt bæði á heimsmeistaramóti í bardaga og í formum á árinu, með eftirtektarverðum árangri, en greinarnar eru það ólíkar að það má líkja þeim við mismunandi greinar í frjálsum íþróttum. Á heimsmeistaramóti unglinga í bardaga í Tævan tapaði hún naumlega fyrir þeim keppanda sem stóð síðan uppi sem heimsmeistari á því móti.
Á heimsmeistaramótinu í Mexicó í formum varð Ástrós í 10. sæti í afar fjölmennum flokki eftir að hafa slegið út m.a. ríkjandi Evrópumeistara.
Á Norðurlandamótinu í maí átti Ástrós frábæran dag. Hún varði Norðurlandameistaratitilinn í bardaga með glæsibrag er hún sigraði bestu keppendur Noregs og Danmerkur með miklum mun, eða samtals með 33 stig skoruð gegn einungis 6 sem hún fékk á sig.
Á Reykjavík Interntional Games vann Ástrós til fjögurra gullverðlauna, sigraði í öllum greinum sem hún keppti í, og var ennfremur valin keppandi mótsins.
Ástrós keppti á Íslandsmótinu í tækni og sigraði allar keppnisgreinarnar. Hún fékk gull í einstaklings, gull í hópa og gull í paratækni og er þetta í 3. sinn sem hún tekur öll gullin sem eru í boði á Íslandsmóti í tækni. Ástrós er enn ósigruð á íslenskum vettvangi í tækni eftir yfir 35 framkomur. Hún var einnig valin keppandi mótsins á Íslandsmótinu en hún hefur ávallt fengið þá viðurkenningu þegar hún hefur keppt.
Þess utan er Ástrós margfaldur bikarmeistari bæði í bardaga og formum.
Ástrós er einstaklega ákveðinn og einbeittur íþróttamaður sem hefur sýnt fram á mikinn vilja til að ná langt í sinni íþrótt. Hún tileinkar sér venjur marga bestu íþróttamanna heims og sættir sig ekki við neitt nema fyrsta flokks frammistöðu á öllum sviðum.
Helstu afrek Ástrósar á árinu eru:
Norðurlandameistari í bardaga
Silfurverðlaun á Norðurlandamóti í formum
RIG meistari í bardaga
RIG meistari í formum, einstaklings,para og hópa.
RIG valinn keppandi mótsins
Gullverðlaun í formum á Rodövre Cup í Danmörku
Þrefaldur Íslandsmeistari í formum
Íslandsmeistaramót í formum, valinn keppandi mótsins með lang hæstu einkunn.
Bikarmeistari í bardaga
Bikarmeistari í formum
Bikarmeistari keppandi mótsins í samanlögðu.
10. sæti á heimsmeistaramótinu í formum í Mexíkó
9-16.sæti á heimsmeistarmótinu í bardaga.
Samtals 13 gull og 2 silfur.