Björn og Christine Íþróttamenn Grindavíkur 2012
Júdókappinn Björn Lúkas Haraldsson og hlaupakonan Christine Buchholz voru kjörin íþróttamaður og íþróttakona Grindavíkur 2012 við hátíðlega athöfn í Hópsskóla á gamlársdag. Bæði náðu glæsilegum árangri á síðasta ári í íþróttagreinum sínum.
Björn Lúkas Haraldsson, íþróttamaður Grindavíkur 2012:
Björn Lúkas er alveg einstaklega hæfileikaríkur íþróttamaður. Björn Lúkas er að skara fram úr í þremur íþróttum samtímis þ.e. taekwondo, judo og brasilísku jiu jitsu þar sem hann keppir bæði í unglinga og fullorðinsflokki. Björn Lúkas stefnir á að taka svarta beltið í bæði judo og taekwondo á næstunni. En fyrir þá sem ekki vita þá eru þessar tvær íþróttir mjög ólíkar. Björn Lúkas er mjög metnaðargjarn og kappsamur um árangur. Hann tekur tilsögn einstaklega vel og þarf sjaldan að leiðrétta hann með það sama tvisvar. Hann er fljótur að læra og tileinka sér nýja tækni sem honum er kennd og er það góður kostur og hugsanlega ástæðan fyrir gríðarlega góðum árangri hans. Björn er mjög kurteis og góð fyrirmynd í alla staði.
Eftirfarandi er árangur hans á árinu 2012:
Taekwondo
Bikarmót 3 TKÍ 1x gull, 1x silfur og var valinn keppandi mótsins.
Íslandsmót í tækni - silfur í einstaklingskeppni
Íslandsmót í tækni - brons í parakeppni
Íslandsmót í tækni - silfur í hópakeppni
Bikarmót 1 TKÍ - gull í bardaga, keppti upp fyrir sig í aldri og þyngd. Sigraði einn bardagann með stærsta mun sem sést hefur á Íslandi eða með rúmlega 50 stiga mun. Björn Lúkas var valinn keppandi mótsins í fullorðinsflokki, þrátt fyrir að hafa keppt upp fyrir sig um aldur.
Bikarmót TKÍ taekwondo - silfur í tækni
Brasílískt Jiu jitsu
Mjölnir Open fullorðna í brazilian jiu jitsu- vann eina glímu
Íslandsmót unglinga í brazilian jiu jitsu - vann flokkinn og opna flokkinn án þess að fá á sig stig
Íslandsmót fullorðna í brazilian jiu jitsu - vann -82 kg flokkinn. Keppti á undanþágu því hann er of ungur til að keppa á fullorðinsmótum.
Sleipnir open nogi brazilian jiu jitsu - 3 sæti í sínum flokki. Hans glíma var valin glíma mótsins.
Sleipnir open gi brazilian jiu jitsu - 1 sæti í sínum flokki, 2 sæti í opna flokknum. Fékk verðlaun fyrir flottasta bragð mótsins.
Christine Buchholz, íþróttakona Grindavíkur 2012:
Christine Buchholz er félagi nr. 30 í félagi 100 km hlaupara. Hún hefur verið að færa sig yfir í lengri vegalengdir eftir að hún lauk 100 km hlaupi á Spáni haustið 2010. Hún hljóp 100 mílna hlaup á Spáni 22. og 23. október 2011 á tímanum 23 klst og 30 mín. Hún lauk áfangahlaupinu GORE-TEX® TRANSALPINE-RUN í september 2012. Það var hlaupið á átta dögum um Þýskaland, Austurríki og Ítalíu. Hlaupið var 320 km langt og samanlögð heildarhækkun var 15.000 metrar. Að lokum hljóp Christine Ultima Frontera í Andalusiu á Spáni dagana 20. og 21. október sl. Það er 166 km langt hlaup í fjalllendi. Þar sigraði hún kvennaflokkinn í 166 km. og var sú eina sem lauk hlaupinu af konunum. Var 6. sæti í heildina af 25 sem luku keppni. Um 50 manns hófu keppni. Var útnefnd ofurhlaupari ársins 2012 í kvennaflokki á uppskeruhátíð Frjálsíþróttasambands Íslands í lok október.