HS Orka
HS Orka

Íþróttir

Þriðjudagur 22. febrúar 2000 kl. 16:09

Eydís á leið til Ástralíu

Sundkrakkar af Suðurnesjum sýndu góðan árangur á Ármannsmótinu í sundi um síðustu helgi. Íris Edda Heimisdóttir vann m.a. besta afrekið á mótinu og fékk sérstakan farandbikar að launum. Eydís Konráðsdóttir var einn keppenda á mótinu og vann þær sex greinar sem hún tók þátt í. „Ég var nálægt metinu mínu í 200 metra flugsundi og hefði vilja sjá það falla“, segir Eydís en bætir við að þau séu búin að vera á mjög þungum æfingum undanfarið, „svo það er kannski ekki von að metin hafi ekki fallið“, segir Eydís. Eydís hefur dvalið við æfingar á Ástralíu undanfarið ár, við undirbúning fyrir olympíuleikana í Sidney sem hefjast í september á þessu ári. Hún er á leið þangað í þessari viku og hyggst þá dvelja þar í um tvo mánuði. „Ég æfi í stórri íþróttamiðstöð sem var reist til að styrkja ástralskt íþróttafólk fyrir ólympíleikana. Þarna eru æfðar a.m.k. 26 íþróttagreinar og eingönu úrvalslið frá Ástralíu fá aðgang. Krakkarnir fá styrk til að æfa þarna og fá borgað fæði og húsnæði. Þau fá líka aðstoð við námið, þannig að lífið snýst ekki bara um íþróttagreinina“, segir Eydís. Það hlýtur að vera sannkölluð paradís íþróttamannsins að fá þetta tækifæri. En hvernig komst Eydís þarna að? „Kærastinn minn, Matthew Dunn sem er í sundliði Ástrala, er að æfa þarna og hann kom því í gegn að ég gæti fengið að vera þarna líka, sem hefur verið alveg frábært“, segir Eydís. Eydís mun dvelja á Ástralíu og æfa grimmt en í maí mun hún fara á nokkur alþjóðleg stórmót til að reyna að ná lágmörkunum fyrir olympíuleikana. „Í maí fer ég á mót í Mónakó og í Canet í Frakklandi. Síðasta tækifæri til að ná lágmörkunum er Evrópumeistaramótið í Helsinki sem er í byrjun júlí. Hvað ertu langt frá lágmarkinu? Ég er í 0,7 frá lágmarkinu í 100 m. flugsundi sem er kannski ekki mikið en þetta er stanslaus barátta við brotin. Ég lít á þetta sem skemmtilegt verkefni og ég ætla mér að leysa það af hendi“ segir Eydís að lokum. Texti og mynd: Silja Dögg
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024