Heklan
Heklan

Íþróttir

Frábær árangur Keflvíkinga á Selfossi
Fimmtudagur 7. febrúar 2008 kl. 10:34

Frábær árangur Keflvíkinga á Selfossi

Um helgina fór fram annað TSH bikarmótið í Taekwondo þar sem Keflvíkingar fóru á kostum og náðu 24 verðlaunasætum. Þá voru Keflvíkingar með fjölmennasta liðið eða alls 44 keppendur. Mótið fór fram á Selfossi þar sem 160 keppendur voru samankomnir frá flestum félögum landsins. Keflvíkingar lönduðu alls 8 gullverðlaunum í mótinu og ljóst að starf deildarinnar er í miklum blóma um þessar mundir.

 

Aron Yngvi Nielsen, núverandi bikarmeistari og taekwondomaður Keflavíkur var í erfiðum flokki en stóð sig mjög vel. Hann náði silfurverðlaunm eftir að hafa tapað fyrir Elvari Oddssyni úr Fjölni í úrslitaviðureigninni, en Elvar er einn efnilegasti taekwondokeppandinn á Íslandi um þessar mundir. Kristmundur Gíslason stóð sig frábærlega og vann til silfurverðlauna eftir harða barátta við Ólaf úr Fjölni. Hrefna Jónsdóttir vann til verðlauna í sama flokki en hún er einnig mjög efnileg. Guðmundur Jón Pálmason stóð sig frábærlega og vann allar sína bardaga örugglega. Hann vann sinn flokk og eru þá komin 4 mót í röð sem hann vinnur. Þess má geta að Guðmundur var valinn nemandi ársins hjá deildinni á síðasta tímabili. Karel Bergman Gunnarsson stóð sig frábærlega og kom á óvart þegar hann vann sinn flokk nokkuð örugglega. Þetta er hans langtum besti árangur hingað til. Joanna Kraciuk vann einnig sinn flokk á sínu fyrsta móti. Marel Sólimann Arnarsson átti gott mót um helgina og vann sinn flokk í tveimr greinum, bardaga og þrautabraut. Hann keppti úrslitabardagann við Sverrir Örvar Elefsen, einnig úr Keflavík, en þeir stóðu sig báðir mjög vel. Þeirra flokkur var stór og þurftu þeir að keppa marga bardaga til að komast í úrslitin.

 

Ástrós Brynjarsdóttir vann formkeppnina, en hún er mjög efnileg í þeirri grein. Arnór Freyr Grétarsson og Óðinn Már Ingason unnu þá þrautabrautina ásamt Marel og unnu Keflvíkingar því þrautabraut í öllum flokkum.

 

Stórgott mót fyrir Keflavík. Margir efnilegir keppnismenn að koma upp og þeir reyndari voru einnig að standa sig frábærlega í erfiðum flokkum. Það verður spennandi að sjá hvernig næsta mót mun verða en það verður haldið í Reykjanesbæ í lok apríl. Það er búist við aðsóknarmeti á það mót.

 

www.keflavik.is

 

Mynd: www.hemmi.is