Íþróttir

Fyrsta tap Grindvíkinga
Mánudagur 31. október 2005 kl. 15:20

Fyrsta tap Grindvíkinga

Grindvíkingar biðu sinn fyrsta ósigur í Iceland Express deild karla í körfuknattleik þegar þeir töpuðu gegn ÍR, 85-84, í gær.

Leikurinn var jafn og spennandi allt frá byrjun til enda þar sem liðin skiptust á að hafa forystuna. Úrslitin réðust svo með vítaskoti Ómars Sævarsonar þegar 1 sekúnda var eftir af leiknum. Grindvíkingar höfðu jafnað 84-84 en ÍR náði eftir það skoti sem missti marks. Ómar náði sóknarfrákasti og var brotið á honum. Hann fór á línuna þegar 1 sekúnda var eftir og hitti úr öðru skotinu og tryggði þar með sigurinn.

Páll Axel Vilbergsson, fyrirliði UMFG, átti enn einn stórleikinn fyrir sína menn og skoraði 25 stig og tók fjöldan allan af fráköstum. Einnig var Jeremiah Johnson, nýr leikstjórnandi liðsins að leika vel í sínum fyrsta leik. Páll sagðist, í viðtali við Víkurfréttir, ekki alls ósáttur við leik sinna manna þrátt fyrir útkomuna.

„Við vorum að spila ágætlega þrátt fyrir að við höfum verið með breytt lið. Þetta var mikill baráttuleikur sem hefði getað farið á hvorn veginn sem var, en ÍR er einfaldlega með mjög gott lið og góða leikmenn í öllum stöðum.“

Tölfræði leiksins