Íþróttir

Grænblár Reykjanesbær
Fimmtudagur 11. október 2018 kl. 11:02

Grænblár Reykjanesbær

- stiklað á stóru úr sögulegri rimmu þar sem tengingar milli körfuboltaliða Njarðvíkur og Keflavíkur má finna víða

Það kom í raun enginn annar til greina en Logi Gunnarsson. Blaðamaður fékk leyfi til þess að vera fluga á vegg í búningsklefa Njarðvíkinga í grannaslagnum gegn Keflavík og fylgja eftir einum leikmanni. Engar áhyggjur, áætlunin er að gera það sama með Keflvíkingum þegar liðin mætast í Sláturhúsinu í vetur. Leikurinn fer í sögubækurnar enda hafði hann upp á allt að bjóða. Annað liðið þarf alltaf að sætta sig við tap og að þessu sinni voru það Keflvíkingar. Eftir 2000 daga náðu Njarðvíkingar loksins að endurheimta heimavöll sinn eftir að hafa tapað fimm ár í röð gegn Keflavík á heimavelli sínum sem jafnan er kölluð Ljónagryfjan. Keflvíkingar tala þó stundum um Kisukassann.

Heima hjá Loga var allt með kyrrum kjörum einum og hálfum tíma fyrir leik. Hann var að pakka í tösku og spjalla inn á milli við konuna og dóttur sína. Sonurinn, hinn níu ára gamli Logi Örn, var farinn út á völl að skjóta, hita sig upp fyrir stórleikinn. Hann á ekki langt að sækja metnaðinn og vinnusemina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í bílferðinni upp í Ljónagryfju talaði Logi um að hann hafi ekki fundið fyrir fiðrildum í maganum fyrir svona leik síðan hann var unglingur. Hann átti sannarlega eftir að setja svip sinn á leikinn. Andartökum eftir að hafa klúðrað sniðskoti þegar Njarðvíkingar voru einu stigi undir, sneri Logi leiknum algjörlega við á 30 sekúndum. „Þegar ég brenndi af því skoti þá gleymdi ég því alveg strax. Skotið var frekar erfitt afþví ég þurfti að teygja mig of langt, þó það hafi litið auðveldlega út. Ég hugsaði bara um að koma mér bara aftur í góða stöðu til að skora. Ég má ekki láta svona skot á mig fá því ég þarf að hugsa strax um varnarleikinn, að klúðra ekki þar.“ Logi skoraði svo tvær þriggja stiga körfur sem verða lengi í minnum hafðar.

Hann viðurkennir að skotin hafi verið erfið en það var engin heppni að þau rötuðu rétta leið. „Sonur minn sagði við mig eftir leik að skotin hefðu verið erfið. Ég sagði þá að ég æfi nákvæmlega þessi skot, þar sem ég spretti frá miðju og niður í horn og tek snögg skot úr jafnvægi.“ Það er einmitt það sem Logi gerði bara um morguninn fyrir leik á skotæfingu. „Ég get ekki bara hitt svona skotum allt í einu með heppni. Þetta er ekki tilviljun, án þess að ég sé að stæra mig af því,“ segir Logi sem þekktur er fyrir vinnusemi sína í körfuboltaheiminum.

Viðbrögð Loga eftir seinna skotið vöktu nokkra athygli en þar mátti sjá glitta í Eric Cantona fyrrum leikmann Manchester United. „Ég passaði mig á því að horfa upp í stúkuna hjá mínu fólki. Ég vildi ekki ögra Keflvíkingum en samt sjúga mómentið í mig. Þess vegna stoppaði ég bara og beið og naut augnabliksins í nokkrar sekúndur. Þetta er bara geðveikt stórt að ná að kreista það besta úr manni á svona augnabliki. Mér leið þannig að frá því að ég skaut fyrsta skotinu vorum við einu undir, 30 sekúndum síðar fannst mér við vera með öruggan sigur. Þetta er svo mikil tilfinningasveifla og það er ástæðan fyrir því að ég var svona uppveðraður.“

Getur ekki tapað með son í hvoru liðinu

Það eru fjölmargar áhugaverðar tengingar á milli liðanna í Reykjanesbæ eins og þau eru skipuð í dag. Leikmenn sem hafa leikið með báðum liðum hafa líklega aldrei verið fleiri. Í Keflavíkurliðinu eru það Hörður Axel Vilhjálmsson, Guðmundur Jónsson, Magnús Már Traustason, Ágúst Orrason auk þess sem Sverrir Þór þjálfari lék með báðum liðum á sínum ferli.

Hjá Njarðvík hafa þeir Arnór Sveinsson og sonur Keflavíkurþjálfarans, Jón Arnór Sverrisson leikið með báðum liðum. Halldór Karlsson aðstoðarþjálfari Njarðvíkinga lék einnig með báðum liðum á sínum tíma.

Bræðurnir Ólafur Helgi og Guðmundur Jónssynir eru vanir því að mætast á vellinum. „Ég get ekki tapað í kvöld,“ sagði Jón Guðlaugs slökkviliðsstjóri, faðir drengjanna. „Ég tala við þann sem vinnur í kvöld, en hringi svo í þann sem tapaði á morgun,“ sagði Jón í stúkunni íklæddur tvískiptum búningi. Græni helmingurinn er þar sem hjartað slær og svo sá blái hinumegin. Guðmundur Jónsson er í sérstakri stöðu. Hann er uppalinn Njarðvíkingur en hefur leikið með Keflavík undanfarin fimm ár.

„Það er náttúrlega sérstakt að spila gegn honum. Það er gaman að kítast í honum. Hann er orðinn svo stór að það er ekki eins auðvelt og áður,“ segir Guðmundur um það hvernig er að mæta bróður Ólafi bróður sínum. Þeir bræður eru nokkuð skapstórir og þeir reyna að koma hvorum öðrum úr jafnvægi í leikjum. Guðmundur meikar ekki að ræða þessa leiki áður en þeir eiga sér stað. „Eftir leik hringir pabbi. Þá eru það yfirleitt dómararnir sem eru skúrkarnir. Svo er það örugglega öfugt þegar hann talar við hinn bróðurinn, þá voru dómararnir alveg geggjaðir,“ segir hann og hlær. „Ég er Keflvíkingur eins og staðan er núna en er uppalinn Njarðvíkingur. Ég verð bjálaður þegar ég tapa gegn Njarðvík, það fer í mínar fínustu taugar,“ segir baráttujaxlinn Guðmundur. „Það var rosalega sérstakt að fara í kvennaklefann, þar sem útliliðið er jafnan í Njarðvíkurhúsinu. Þetta er aðeins að venjast,“

Aðspurður um ríginn þá hefur Guðmundur upplifað tímana tvenna. „Þetta eru svo breyttir tímar. Ég man þegar ég var í unglingaflokk þá þurfti marga bestu dómara landsins til þess að dæma því menn voru svo hræddir um að að allt myndi sjóða upp úr. Þegar ég var yngri þá var ekki möguleiki að maður færi nokkurn tímann í Keflavík. Rígurinn var bara það mikill. Hann er ekki eins og hann var. Þetta var ekki einu sinni hugmynd, þú varst ekkert að fara í Keflavík.“

Guðmundur saknar þess að pústrarnir eru að mestu horfnir úr leiknum. Hann hatar ekkert að ýta við mönnum og er yfirleitt meðal fyrstu manna í þvöguna. „Maður er aðeins farinn að læra á skapið á sér og velur pústrana betur. Á yngri árum þurfti ekki mikið til að kveikja á manni. Þegar ég var að semja við Keflavík þá var Falur Harðar formaður. Ég lenti margoft í rimmu við hann á vellinum þar sem allt var að sjóða upp úr,“ rifjar hann upp.

Hvering er það að ögra Njarðvíkurstúkunni? [hlær] „Ég elska þetta maður. Ég þekki helminginn af þessu liði. Það er ekkert jafn gaman og að benda upp í stúku og heyra síðan drullið sem kemur tilbaka.“

Enginn hélt með pabba

Feðgarnir Sverrir Þór Sverrisson og Jón Arnór Sverrisson búa undir sama þaki en tilheyra sitthvoru liðinu. „Við töluðum mjög lítið saman vikuna fyrir leik. Við heilsuðumst bara og maður fann að andrúmsloftið var skrítið. Það var furðulegt að hann væri að fara að spila og að maður óskaði þess að hann myndi ekki spila vel. Hann má spila vel í vetur en má hitta á slaka leiki gegn okkur,“ segir Sverrir. Hann er uppalinn Keflvíkingur, harður út í gegn og ekki vottar fyrir grænu blóði. Þrátt fyrir það er hann giftur Njarðvíkingnum Auði Jónsdóttur sem lék lengi með Njarðvíkurliðinu. Þau hafa alla tíð búið í Njarðvík og börnin uppalin græn. Eftir leikinn voru þeir feðgar einir heima. „Strákurinn kom heim talsvert seinna en ég. Þá var ég reyndar að horfa á leikinn aftur og fara yfir hann. Ástandið er svo að komast í lag á heimilinu.“ Rígurinn er alltaf til staðar að mati Sverris. „Eini munurinn er sá að það er orðið ansi langt síðan að bæði lið urðu Íslandsmeistarar. Það liðu ekki mikið meira en tvö ár milli titla hjá þessum liðum hér áður fyrr.“

Fjölskyldan er því græn í gegn ef Sverrir er frátalinn. Jón Arnór hefur verið að vinna í málningarfyrirtæki pabba síns á sumrin þannig að feðgarnir eru alla jafna í miklu sambandi. „Hann er ekki að vinna hjá mér núna, þá væri ég búinn að reka hann,“ segir þjálfarinn léttur í bragði. Eftir leik kom Bylgja systir Sverris með Jóni inn á völlinn þegar Sverrir var á leið í viðtal. „Hún óð inn á völlinn og vildi fá mynd af okkur feðgum saman. Ég var ekki alltof mikið til í það. Hún er orðin algjör Njarðvíkingur. Ég held að hún viti það ekki einu sinni lengur að hún hafi alist upp í Keflavík og spilað þar alveg upp í meistaraflokk,“ segir Sverrir Þór.

Jón Arnór tók innkast í leiknum þar sem hann stóð við hlið pabba síns í þjálfarastólnum. Þeir litu hálf vandræðalegir á hvorn annan og heilsuðust snögglega. Svona smá nikk. „Yfirleitt segir hann „gangi þér vel“ fyrir leiki hjá mér. Það var ekkert þannig þessa vikuna,“ segir Jón sem hafði vit á því að vera ekkert að skjóta á pabba sinn eftir sigurinn en þeir töluðu fyrst um leikinn fjórum dögum síðar við kvöldverðarborðið. Jón er alinn upp í Njarðvík en lék í nokkra mánuði með Keflavík í fyrra. „Ég get ekki sagt að það sé Keflvíkingur í mér. Ég var mikið með pabba á æfingum þegar ég var yngri en þeir leikmenn eru allir hættir og tengingin því minni.“ Jón upplifir ríginn þannig að hann fari minnkandi. „Maður fær örfá skot á sig í skólanum. Þegar ég var í yngri flokkum þá voru menn bara ferskir eftir leik og allir vinir. Ég vil samt fá þennan ríg aftur,“ segir Jón Arnór.