Íþróttir

Grindavík tapaði gegn Íslandsmeisturunum
Laugardagur 5. maí 2018 kl. 19:45

Grindavík tapaði gegn Íslandsmeisturunum

Grindavík tók á móti Þór/KA í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í dag. Veðrið var ágætt á Grindavíkurvelli, lognið fór hratt yfir og vindurinn stóð beint á stúkuna, sólin skein þó í fyrri hálfleik og snjórinn lét ekki sjá sig en það hafði verið smá ofankoma fyrr um daginn í Grindavík.

Leikurinn byrjaði rólega en Norðankonur létu vita af sér á 7. mínútu þegar Sandra María Jessen skoraði fyrsta mark leiksins og Þór/KA komst í 0-1. Þór/KA pressaði stíft allan leikinn en Grindavík varðist gegn hverri sókninni á fætur annari. Markmaður Grindavíkur, Viviane átti góðan leik í fyrri hálfleik í markinu og varði vel á köflum. Þór/KA leiddi 0-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Viðreisn
Viðreisn

Þór/KA pressaði stíft í byrjun fyrri hálfleiks og borgaði sú pressa sig því á 55. mínútu skora þær úr hornspyrnu. Fjórum mínútum síðar skorar Þór/KA og staðan orðin 0-3 fyrir gestina. Grindavík gerði breytingu á liði sínu á 68. mínútu þegar Eva María Jónsdóttir kom inn á fyrir Elenu Brynjarsdóttur. Ekki dró til tíðinda í leiknum fyrr en á 80. mínútu en þá skorar Sandra María Jessen og staðan því orðin 0-4 og Grindavík með fá svör við sóknarleik Þórs/KA. Lokamark Þórs/KA kom á 90. mínútu þegar Sandra María Jessen skorar sitt þriðja mark og tryggði Þór/KA 0-5 sigur í sínum fyrsta leik.

Rannveig Jónína, blaðamaður Víkurfrétta tók meðfylgjandi myndir á leiknum í Grindavík í dag.

Mörk leiksins: 
0-1 Sandra María Jessen ('7)
0-2 Arna Sif Ásgrímsdóttir ('55)
0-3 Sandra Mayor ('59)
0-4 Sandra María Jessen ('80)
0-5 Sandra María Jessen ('90)

 

Grindavík-Þór/KA