Háspenna í Keflavík
Keflvíkingar unnu eftir tvöfalda framlengingu
Framlengja þurfti tvisvar í TM-höllinni í kvöld þegar Keflvíkingar tóku á móti á ÍR í Domino's deild karla. Að lokum fóru Keflvíkingar með sigur af hólmi, 126-123 í hreint mögnuðum leik. Michael Craion átti stórleik hjá Keflvíkingum en hann skoraði 42 stig og reif niður 16 fráköst. Hinum megin var Nigel Moore sjóðandi heitur en hann skoraði 32 stig og var auk þess með 14 fráköst.
Leikurinn var jafn og spennandi nánast frá upphafi en staðan var 56-60 í hálfleik, ÍR í vil. ÍR var með yfirhöndina lengi vel í síðari hálfleik en Keflvíkingar náðu að sýna sitt rétta andlit í loka leikhlutanum og jafna rétt undir lokin. Í fyrri framlengingunni var allt í járnum og aftur þurfti að framlengja, háspenna lífshætta. Arnar Freyr Jónsson skoraði svo afar mikilvæga þriggja stiga körfu undir lokin en hann hafði látið lítið á sér bera í leiknum fram að því. Úr varð að þar voru síðustu stig leiksins og Keflvíkingar sigruðu með þremur stigum, 126-123. Eftir þrjá ósigra í röð náðu Keflvíkingar að knýja fram mikilvægan sigur í sínum síðasta heimaleik og næst síðasta leik tímabilsins.
Tölfræði:
Keflavík: Michael Craion 42/16 fráköst/5 stolnir, Darrel Keith Lewis 31/7 fráköst/6 stoðsendingar/6 stolnir, Guðmundur Jónsson 24/6 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 12/9 fráköst, Valur Orri Valsson 12/5 fráköst/6 stoðsendingar, Arnar Freyr Jónsson 5.