Hólmar Örn frá í 6-8 vikur
Hólmar Örn Rúnarsson, fyrirliði knattspyrnuliðs Keflvíkinga, mun ekki leika með liðinu næstu 6-8 vikurnar sökum meiðsla sem hann varð fyrir í leiknum gegn Fylki í gær, en hann varð fyrir því óláni að ristarbrotna þegar skammt lifði fyrri hálfleiks. Hann staðfesti þetta við mbl.is í dag.
„Jú þetta er rétt, ég er bara haltrandi heima fyrir. Það er sprunga í einu beininu. Þetta er það sama og Beckham lenti í um árið,“ sagði Hólmar Örn á mbl.is. Hólmar Örn missteig sig illa í lok hálfleiksins og þar með var þátttöku hans í leiknum lokið og munar um minna, segir heimasíða Keflavíkur, www.keflavik.is
Ljóst er að meiðsli Hólmars, sem er fyrirliði Keflavíkur, eru mikið áhyggjuefni fyrir Keflavíkurliðið, en Hólmar er að öðrum ólöstuðum einn besti maður liðsins, skoraði til að mynda sigurmarkið gegn FH í fyrstu umferð og var einn af burðarásum liðsins í fyrrasumar.
Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson