Í kennslustund í Kóreu
Helgi Rafn Guðmundsson er staddur í Kóreu um þessar mundir þar sem hann hefur verið að mennta sig enn frekar í Tae Kwon Do fræðunum og er hann nú þegar orðinn þriðju gráðu kennari. Helgi hefur verið staddur í Kukkiwon sem eru höfuðstöðvar íþróttarinnar og sagði hann í samtali við Víkurfréttir að sterkt væri fyrir ört vaxandi TaeKwonDo deild Keflavíkur að fá kennara sem væri ötull við að auka menntun sína í íþróttinni.
„Ég er annar TaeKwonDo kennarinn á Íslandi sem hlýtur þessa gráðu og hef verið hér í Kóreu ásamt Sigursteini Snorrasyni. Þessa dagana erum við í einkakennslu hjá fyrrverandi heimsmeistara í TaeKwonDo og það hefur reynst okkur mjög gagnlegt og mikilvægt að fá uppfærslur á ýmsum atriðum til að geta staðið okkur vel í alþjóðakeppnum sem og í kennslunni heima á Íslandi,“ sagði Helgi. Alls voru 120 manns frá 30 þjóðlöndum á námskeiðinu í Kóreu og sagði Helgi að ferðin hefði til þessa verið einstök upplifun og að mikil reynsla hefði safnast í sarpinn. Hann vildi koma innilegu þakklæti á framfæri til allra þeirra sem styrktu hann til fararinnar en það voru: TaeKwonDo deild Keflavíkur, SsangyongTaeKwon Samtökin, Fiskbúðin Vík, Byko, Landsbankinn og Reykjanesbær.
Æfingar hjá TaeKwonDo deild Keflavíkur hefjast svo að nýju í septemberbyrjun og sagði Helgi að markmiðin væru skýr hjá deildinni. Að verða besta félagið á landinu í komandi mótum.