Íþróttir

Jóhann keppir á Opna breska meistaramótinu
Þriðjudagur 13. september 2011 kl. 09:50

Jóhann keppir á Opna breska meistaramótinu

Þrír borðtenniskappar úr Íþróttasambandi Fatlaðra héldu í morgun áleiðis til Englands til að keppa á Opna breska meistaramótinu í borðtennis. Jóhann Rúnar Kristjánsson fer sem reynslubolti hópsins en með honum í för eru Tómas Björnsson ÍFR og Viðar Árnason ÍFR en Jóhann keppir eins og kunnugt er fyrir Nes í Reykjanesbæ.

Keppnin fer fram 14.-17. september og stefna kapparnir að því að næla sér í verðlaun ytra. Heimasíða ÍF náði snörpu samtali við Jóhann í gær sem er einbeittur um þessar mundir og ætlar sér til London á næsta ári.

,,Markmiðið er að ná í verðlaunasæti á mótinu og gera góða hluti til þess að komast ofar á heimslistanum. Ég er í 24. sæti um þessar mundir en markmiðið er að komast upp í það sextánda,“ sagði Jóhann en 16 efstu sætin komast til London á næsta ári.

,,Þá verður gaman að fylgjast með Tomma og Viðari, hvorugur hefur farið út á mót í nokkurn tíma þannig að þeir hafa æft vel undanfarið og bætt sig mikið og því spennandi að sjá hvernig fer hjá þeim,“ sagði Jóhann en kapparnir eru væntanlegir aftur heim á sunnudag.