Keflavík einu númeri of stórar fyrir Grindavík
Það verða Haukar og Keflavík sem mætast í úrslitum á sunnudag í Poweradebikarkeppni kvenna. Keflavík vann öruggan sigur á Grindvíkingum í kvöld 92-59 þar sem Keflavíkurstúlkur voru einu númeri of stórar fyrir þær gulu.
Fyrsti leikhluti var mjög jafn þó að Keflavík væri ávallt skrefinu á undan og endaði hann 18-10 fyrir Keflavík. Í öðrum leikhluti náði Keflavíkingar góðu forskoti og höfðu um tíma 13 stiga forskot. Grindavík minnkaði muninn þegar leið á leikhlutann og munaði aðeins 4 stigum, 32-28 þegar fjórar mínútur voru eftir. Þá var komið að Keshu Watson en hún skoraði næstu átta stig Keflvíkinga og höfðu þær 10 stiga forystu í hálfleik 40-30.
Seinni hálfleikur var aðeins formsatriði og juku Keflvíkingar muninn jafnt og þétt og var hann mestur í endann eða 33 stig, 92-59.
Bryndís Guðmundsdóttir átti góðan leik fyrir Keflavík og skoraði 35 stig og fjórum sinnum skoraði hún og fékk víti að auki. Kesha Watson var sterk og þá sérstaklega í fyrri hálfleik en hún skoraði 16 stig öll í þeim fyrri.
Hjá Grindavík var Joanna Skipa allt í öllu og skoraði hún 26 stig.
Úrslitaleikurinn er á sunnudag og hefst hann kl. 14:00 í Höllinni.
VF-mynd: Stefán Þór Borgþórsson - [email protected] – Bryndís Guðmundsdóttir var óstöðvandi í leiknum.