Keflavík tapar á Króknum
Keflvíkingar töpuðu enn einum útileiknum í dag þegar þeir þurftu að láta í minni pokann fyrir Tindastóli á Sauðárkróki. Lokatölur leiksins voru 89-86 og ráðast úrslitin í einvíginu því ekki fyrr en á þriðjudag í Keflavík.
Leikurinn var jafn framan af en Tindastóll komst í 15-10, en Keflvíkingar svöruðu að bragði og náðu mest 9 stiga forskoti 34-25. Á þessum kafla gekk flest upp hjá þeim, en heimamenn unnu á fram að hálfleik þar sem staðan var 46-47 Keflvíkingum í vil.
Í seinni hálfleik gekk ekkert upp hjá gestunum og Stólarnir tóku 12-2 rispu strax í byrjun. Keflvíkingar náðu ekki að svara fyrir sig og var munurinn 8 stig, 71-63, eftir þrjá leikhluta.
Keflvíkingar komu sterkir til leiks í lokafjórðungnum og voru búnir að minnka muninn í 2 stig eftir 3 mínútur. Eftir það var leikurinn í járnum og hefði getað brugðið til beggja vona því að gestirnir höfðu boltann þegar þeir voru einu stigi undir og um hálf mínúta var til leiksloka. Sóknin gekk þó ekki upp og Clifton Cook skoraði úr tveimur vítaskotum í kjölfarið. Keflvíkingar höfðu enn fimm sekúndur til að jafna, en skot Fannars Ólafssonar rataði ekki rétta leið.
Falur Harðarson, annar þjálfara Keflavíkur, kenndi slæmum leikkafla í upphafi seinni hálfleiks um tapið. „Þetta var bara eins og í síðasta leik þar sem við komum alls ekki tilbúnir í seinni hálfleikinn. Við vorum líka að gefa allt of mikið af lélegum sendingum og misstum 28 bolta í leiknum. Nú er svo komið að við verðum að vinna á þriðjudaginn, annars er tímabilið bara búið hjá okkur.“
Hér má finna tölfræði leiksins