Keflvíkingar blanda sér í toppbaráttuna
Keflvíkingar sóttu glæsilegan sigur á Stjörnumönnum í Garðabæ nú fyrir skömmu í Pepsi-deildinni í knattspyrnu en strákarnir úr Bítlabænum unnu 1-3 sigur. Keflvíkingar komust yfir með frábæru marki frá Guðmundi Steinarssyni en Mark Doninger jafnaði metin skömmu síðar fyrir heimamenn. Hörður Sveinsson, sem kom inn á fyrir Guðmund Steinarsson stipmlaði sig aftur inn í Keflavíkurliðið í síðari hálfleik en hann kom þeim yfir eftir varnarmistök Stjörnunnar.
Það var svo Jóhann B. Guðmundsson sem innsiglaði sigur Keflvíkinga með góðu marki í blá lokin. Keflvíkingar eru nú í 4.-5. sæti deildarinnar með 21 stig.
Zoran Ljubicic þjálfari Keflvíkinga var ánægður í leikslok með frammistöðu sinna manna. „Við lékum oft góðan fótbolta og héldum haus þó við misstum lykilmenn útaf eins og Guðmund Steinarsson og Harald Guðmundsson. Ungu strákarnir okkar sýndu hvað þeir geta og þetta var góður og mikilvægur sigur,“ sagður ánægður þjálfari eftir leikinn.