Keflvíkingar glæsilegir fulltrúar Íslands
Á alþjóðlegu taekwondomóti í Serbíu
Keflvíkingarnir Karel Bergmann Gunnarsson, Kristmundur Gíslason og Helgi Rafn Guðmundsson tóku allir þátt á sterku takwondomóti í Serbíu um helgina. Þeir kepptu þar fyrir Íslands hönd og stóðu sig allir með prýði. Mótið kallast Millennium Open og var nú haldið í 7. sinn. Aðeins fóru þrír keppendur frá Íslandi á mótið og komu þeir allir frá Keflavík.
Karel reið á vaðið en hann var í feiknisterkum unglingaflokki. Karel er m.a. margfaldur Íslandsmeistari og einn besti unglingakeppandi Íslands. Á þessu móti keppti hann í -63kg flokki unglinga. Hann barðist vel og sótti hart allan tímann en þurfti að láta í minni pokann fyrir sterkum serbneskum keppanda.
Kristmundur keppti næst. Kristmundur er á leiðinni á Evrópumót undir 21. árs sem verður haldið í Moldavíu næstu helgi. Þetta mót var liður í undirbúningi fyrir það mót, en Kristmundur var m.a. valinn taekwondomaður ársins á síðasta ári. Kristmundur keppir í -87kg flokki. Í fyrsta bardaga mætti hann hávöxnum keppanda frá Serbíu. Kristmundur stjórnaði bardaganum alveg frá upphafi og sótti vel. Andstæðingur hans virtist missa sjálfstraustið eftir sem leið á bardagann enda átti hann engin svör við árásum Kristmundar. Lokatölur urðu 3-0 Kristmundi í vil.
Kristmundur var þá kominn í undanúrslit og keppti næst við mjög sterkan andstæðing. Bardaginn var hnífjafn allan tímann en í lok bardagans átti andstæðingurinn góðar sóknir og kláraði bardagann sterkt. Kristmundur tapaði því bardaganaum en hlaut þó bronsverðlaun í sínum flokki.
Helgi keppti síðastur íslensku keppendana. Helgi er þjálfari Keflavíkur sem hefur verið sigursælasta lið á íslandi síðustu ár og er hann nú að komast á skrið aftur eftir langt hlé frá keppni vegna meiðsla. Í fyrsta bardaga náði Helgi yfirhöndinni strax í byrjun fyrstu lotu og hélt forystunni allan bardagann. Bardagainn endaði 4-2 honum í vil. Helgi var þá kominn í úrslit og keppti næst við Serbneskan landsliðsmann. Serbinn var mjög sterkur og skoraði góð stig á Helga. Helgi tapaði bardagnum 16-4 og fékk silfurverðlaun.
Helgi Rafn hér til hliðar.