Heklan
Heklan

Íþróttir

Keflvíkingar sigursælir í Finnlandi
Hópur Keflvíkinga í Finnlandi.
Mánudagur 27. maí 2013 kl. 07:04

Keflvíkingar sigursælir í Finnlandi

Eignuðust þrjá Norðurlandameistara

Um helgina fór fram Norðurlandamótið í taekwondo í Finnlandi þar sem Keflvíkingar sópuðu hreinlega til sín verðlaunum. 

11 keppendur fóru frá Keflavík og stóðu þeir sig með mikilli prýði en Keflvíkingar eignuðust þrjá Norðurlandameistara. Auk þess fengu keppendur frá Keflavík fjögur silfur og fjögur brons. Þetta er langbesti árangur Keflvíkinga á erlendri grundu í taekwondo frá upphafi.

33 íslenskir keppendur kepptu á mótinu sem er stærsta íslenska lið á móti erlendis í taekwondo. Mikil og öflug uppbygging hefur verið í taekwondoíþróttinni undanfarin misseri og það sést í stórum landsliðshóp og góðum árangri, en árangurinn á þessu móti er sá besti sem sést hefur hjá Íslandi.

Helgi Rafn Guðmundsson þjálfari ásamt Norðurlandameisturum frá Keflavík. Frá vinstri Ástrós Brynjarsdóttir, Ágúst Kristinn Eðvarðsson og Bjarni Júlíus Jónsson.

Ástrós Brynjarsdóttir varð í 2. sæti í tækni á mótinu, en það munaði 0,1 frá því að hún tæki gullverðlaun á móti heimamanninum. Flokkurinn var stór og sterkur og var þetta besti árangur Íslendings í tækni erlendis. Þá varð hún Norðurlandameistari í bardaga -47  kg flokki þar sem hún barðist mjög tæknilega og góða bardaga. Ástrós var valin taekwondo kona ársins hjá ÍSÍ fyrir árið 2012, en hún sýndi greinilega á þessu móti hvers vegna það var.

Ágúst Kristnn Eðvarðsson er ungur og efnilegur taekwondo kappi sem æfir alltaf af krafti. Hann keppti í -33 kg flokki drengja og stóð sig frábærlega. Hann vann báða sína bardaga með góðri tækni og keppnisanda. Ágúst er í feykigóðu formi sem sést vel á því að hann getur haldið einbeitingu út langa og erfiða bardaga án þess að það hægist á honum. Hann varð Norðurlandameistari í sínum flokki í bardaga.

Bjarni Júlíus Jónsson keppti í -65kg flokki drengja. Hann stóð sig vel og vann til gullverðaluna. Þetta er hans annað erlenda mót og í bæði sinn hefur hann komið heim með gullverðlaun. Bjarni er m.a. margfaldur Íslandsmeistari og bætti um helgina við Norðurlandatitli í safnið.

Aðrir keppendur stóðu sig einnig feykilega vel. Keflvíkingarnir voru til fyrirmyndar bæði innan vallar sem utan og sýndu góðan anda, hvort heldur í tapi eða sigri.

Önnur verðlaun Keflvíkinga voru:

Sverrir Örvar Elefsen - Bronsverðlaun í bardaga og silfurverðlaun í paratækni
Svanur Þór Mikaelsson - Silfurverðlaun í bardaga og 4. sæti í tækni.
Karel Bergmann Gunnarsson - Bronsverðalun í bardaga
Helgi Rafn Guðmundsson - Bronsverðlaun í bardaga
Ægir Már Baldvinsson - Bronsverðlaun í bardaga
Adda Paula Ómarsdóttir - Silfurverðlaun í hópatækni.