Íþróttir

Fimmtudagur 14. ágúst 2003 kl. 09:35

Maggi Þorsteins

Magnús Þorsteinsson, hinn skæði sóknarmaður Keflvíkinga í knattspyrnu, hefur leikið vel í sumar í 1. deildinni, skorað 9 mörk ásamt því að leggja upp fjöldann allan af mörkum fyrir félaga sína. Hann sagðist í samtali við Víkurfréttir vera ánægður með sína frammistöðu í sumar. „Við Tóti (Þórarinn Kristjánsson) höfum spilað vel saman í framlínunni og það væri ekki leiðinlegt ef annar hvor okkar tæki markakóngstitilinn“. Magnúsi líst vel á lokabaráttuna í deildinni enda segir hann liðið tilbúið í átökin. „Við ætlum okkur sigur í næstu tveimur leikjum og þá ættum við að vera nokkuð góðir. Við tökum auðvitað bara einn leik fyrir í einu en ég held nú að við eigum ekki eftir að tapa mörgum stigum. Það er mikill kraftur í liðinu á æfingum og stemningin innan liðsins er góð sem hjálpar mikið“. En er úrvalsdeildarsætið ekki öruggt?
„Nei, ég myndi ekki segja það. Við þurfum bara rétt að misstíga okkur til að Víkingur og Þór komi í rassgatið á okkur. Við ætlum hins vegar ekki að láta það gerast. Ég held að Víkingur fylgi okkur upp. Það væri þó ekki leiðinlegt að skemma það fyrir þeim á heimavelli okkar í lokaumferðinni. Það yrði tvöföld hamingja!.
Keflvíkingar sem leikið hafa mjög vel í sumar stefna beint upp í úrvalsdeild að nýju en einungis fimm leikir eru eftir af tímabilinu.