Palóma
Palóma

Íþróttir

Margréti Sturlaugsdóttur sagt upp hjá Keflavík
Föstudagur 8. janúar 2016 kl. 19:37

Margréti Sturlaugsdóttur sagt upp hjá Keflavík

Tveir leikmenn hótuðu að yfirgefa liðið

Margréti Sturlaugsdóttur hefur verið sagt upp störfum hjá kvennaliði Keflavíkur í Domino's deildinni í körfubolta. Ástæður uppsagnarinnar eru óljósar að svo stöddu. Þetta staðfesti Margrét í samtali við VF, þar sem hún sagði að hún hefði viljað vera áfram með liðið en því miður hafði það ekki gengið. Hún kaus að tjá sig ekki frekar um málið.

Uppfært: Samkvæmt heimildum VF munu tveir lykilleikmenn liðsins hafa hótað því að yfirgefa liðið ef Margrét væri áfram við stjórnvölinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrr á tímabilinu höfðu deildur milli Margrétar og Bryndísar Guðmundsdóttur komist í kastljósið, málalyktir urðu þær að Bryndís ákvað að ganga til liðs við Snæfell og Margét hætti sem þjálfari hjá landsliðinu. Keflvíkingar eru sem stendur í þriðja sæti deildarinnar.

Yfirlýsing frá Keflvíkingum:

Margrét Sturlaugsdóttir lætur af störfum
Stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur hefur ákveðið að Margrét Sturlaugsdóttir láti af störfum sem aðalþjálfari meistaraflokks Keflavíkurstúlkna. Stjórn þakkar Margréti fyrir samstarfið í vetur og óskar henni velfarnaðar í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.
Marín Rós Karlsdóttir mun stýra liðinu þar til nýr þjálfari hefur verið ráðinn, en í bikarleiknum á morgun gegn Skallagrím mun Sigurður Ingimundarson vera henni til aðstoðar.