Óslitin sigurganga frá árinu 2007
Keflvíkingar bikarmeistarar í taekwondo
Keflvíkingar fögnuðu um helgina sínum áttunda bikarmeistaratitli í röð í taekwondo, en liðið hefur samfleytt sigrað keppnina frá árinu 2007. Liðið hlaut harða samkeppni frá Ármenningum í ár en haldin eru þrjú bikarmót yfir tímabilið þar sem samanlagður árangur gildir þegar bikarmeistarar eru krýndir.
Ármenningar unnu annað bikarmótið sem haldið var í febrúar með yfirburðum og því var skammt á milli Keflavíkur og Ármanns í heildarstigakeppninni þegar síðasta mótið fór fram um helgina. Keflvíkingar og Ármenningar röðuðu sér í efstu sætin í flestum flokkum og ljóst var að spennan yrði mikil. Undir lok helgarinnar náðu Keflvíkingar svo að knýja fram sigur í stigakeppninni. Mjótt var því á munum að þessu sinni en Keflvíkingar sýndu það og sönnuðu að þeir eru óumdeilanlega með besta lið landsins. Ekki gefst tími til að fagna lengi þar sem Norðurlandamótið í taekwondo verður haldið í Reykjanesbæ þann 17. maí n.k. og eru keppendur þegar farnir að huga að því móti.