Íþróttir

Sterkasta Taekwondo-deild landsins
Mánudagur 12. nóvember 2012 kl. 03:00

Sterkasta Taekwondo-deild landsins

Íslandsmótið í Taekwondo fór fram um síðustu helgi og var keppt í Poomsae sem er tæknihluti íþróttarinnar. Taekwondo-deild Keflavíkur fór með sigur af hólmi í mótinu og því tvöfaldur Íslandsmeistari í ár því fyrr á árinu varð Keflavík Íslandsmeistari í bardagahluta íþróttarinnar. Ástrós Brynjarsdóttir og Bjarni Júlíus Jónsson, bæði úr Keflavík voru valin keppendur mótsins, en þau unnu þrenn gullverðlaun hvor í þeim þremur greinum sem keppt var í. Keflavík vann mótið með minnsta mögulega mun. Keflavík og Ármann urðu jöfn að stigum í heildarkeppninni en Keflavík vann á fleiri gullverðlaunum í keppninni. Keflavík hefur því yfir að ráða sterkustu Taekwondo-deild landsins.

„Við erum rosalega ánægð með árangurinn. Ég held að ég hafi aldrei verið eins spenntur og í ár,“ segir Helgi Rafn Guðmundsson, þjálfari hjá Keflavík. „Það er ekki spurning að við erum með langbestu Taekwondo-deildina á landinu því þetta er í fimmta sinn sem við verðum Íslandsmeistarar í liðakeppninni sem er frábær árangur.“

Stefna á 1000 verðlaun
Áhuginn á Taekwondo hefur aukist mikið í Reykjanesbæ á undanförnum árum. Í dag stunda um 100 iðkendur íþróttina. Þrátt fyrir að deildin hafi aðeins verið starfrækt í um áratug þá er hún í fremstu röð á landinu í dag og fjölmargir landsliðsmenn koma úr röðum Keflavíkur.

Viðreisn
Viðreisn

„Árangurinn hefur farið fram úr björtustu vonum. Það eru tvö stór mót eftir og við stefnum að því að ná 1000 verðlaunum áður en 12. starfsárinu lýkur. Í dag höfum við unnið 950 verðlaun og erum bjartsýn á að það takist. Íslenska landsliðið er að fara að keppa í sterku móti í Skotlandi og þar verða sjö keppendur úr okkar röðum,“ segir Helgi. „Það er einnig gaman að sjá hve sterk deildin er orðin í Grindavík. Þar eru um 30 iðkendur og þeim tókst að verða í þriðja sæti í deildinni þrátt fyrir að vera með fáa keppendur. Það er gott samstarf á milli þessara deilda og gaman að sjá hvað íþróttin er í mikilli sókn á Suðurnesjum.“

Ný aðstaða
Taekwondo-deild Keflavíkur og Júdó-deild Njarðvíkur fluttu í vikunni í nýtt húsnæði að Iðavöllum sem verður framtíðarhúsnæði deildarinnar. Taekwondo-deildin var með aðsetur í íþróttaakademíunni fyrir nokkrum árum en færði sig yfir á Ásbrú. Þó aðstaðan þar hafi verið fín þá þótti staðsetningin ekki heppileg þar sem margir ungir iðkendur hefðu þurft að fara um langan vel til að komast á æfingar.

„Nýja aðstaðan er miklu betri og það er gott að deila húsnæði með vinum okkar í júdóinu. Þeir sem hafa áhuga á að prófa íþróttina geta séð æfingatöfluna á Keflavik.is. Við erum að byrja með námskeið fyrir eldri og fullorðna þannig að þá geta þeir sem hafa áhuga komið og prófað.“