Suðurnesjamenn meðal þeirra bestu
Suðurnesjamenn urðu þess heiðurs aðnjótandi að eiga tvo frábæra íþróttamenn sem voru valdir íþróttamenn ársins hjá sínu sérsambandi á hátíð ÍSÍ og útnefningu íþróttamanns ársins 2012 á dögunum. Um er að ræða þau Ástrósu Brynjarsdóttur og Kristmund Gíslason en þau æfa bæði taekwondo hjá Keflavík.
Kefvíkingurinn Kristmundur Gíslason hefur verið einn besti unglingakeppandi landsins um árabil og kórónar það með frábærum árangri á árinu. Kristmundur var valinn af landsliðsþjáfara til að fara á heimsmeistaramót unglinga sem haldið var í Egyptalandi í apríl. Íslandsmótið var haldið stuttu fyrir mótið og því var tekin sú ákvörðun að Kristmundur myndi ekki keppa þar til að koma í veg fyrir hugsanleg meiðsl og hvíla Kristmund fyrir stóra mótið. Kristmundur stóð sig mjög vel á þessu stærsta móti ferilsins hingað til. Kristmundur var einn fárra keppenda sem sat hjá í fyrstu umferð. Þar á eftir keppti hann við keppanda frá Ástralíu. Hann barðist mjög vel og sigraði bardagann örugglega. Þar á eftir keppti hann við feikisterkan keppanda frá Tyrklandi og tapaði fyrir honum. Hann endaði í 5-8 sæti í sínum flokki.
Kristmundur keppti á bikarmóti taekwondosambansins og sigraði sinn flokk örugglega.
Kristmundur keppti einnig á Norðurlandamótinu en þar sem enginn keppandi var skráður í hans flokk var hann látinn keppa upp fyrir sig í aldri og reynslu. Þurfti þar að láta í minni pokann fyrir sterkari andstæðing.
Kristmundur keppti svo á Scottish Open í nóvember og keppti þar í tveimur aldursflokkum, bæði í unglinga og fullorðinsflokki. Kristmundur vann til bronsverðlauna í fullorðinsflokki og sigraði unglingaflokkinn örugglega. Fyrsti bardaginn fór 14-2 honum í vil og úrlsitabardagann í unglingaflokki sigraði Kristmundur á glæsilegu sparki sem rotaði andstæðinginn eftir aðeins um 30 sekúndur.
Árangur á árinu:
Bikarmót TKÍ 3 2012- Gull í Bardaga
Heimsmeistaramót unglinga Egyptaland - 5-8 sæti
Scottish Open 2012 unglingaflokkur - Gull
Scottish Oen 2012 fullorðinsfókkur - Brons
Ástrós er ein efnilegasta íþróttakona Suðurnesja þrátt fyrir ungan aldur. Hún æfir af kappi með unglingalandsliðum Íslands og taekwondodeild Keflavíkur. Ástrós tekur þátt í öllum mótum, mætir vel og sýnir íþrótt sinni mikinn áhuga. Hún er undantekningalaust á verðlaunapalli og hefur t.a.m. aldrei tapað í keppni í einstaklingstækni sem er ótrúlegur árangur fyrir einhvern sem hefur keppt jafnlengi og hún. Í vor tók hún svarta beltið í taekwondo ásamt fjórum öðrum efnilegum einstaklingum úr Keflavík. Það er ljóst að framtíðin er björt fyrir þessa ungu íþróttakonu, en einungis á þessu ári hefur hún náð fjórum af fjórum mögulegum Íslandsmeistaratitlum, sigrað þrjú gull, eitt silfur og eitt brons á erlendum mótum og sigrað samtals tólf gull á þeim mótum sem hún hefur keppt á og fengið fjölda viðurkenninga fyrir góða tækni og keppnisárangur.
Samanlagður árangur
12 gull, 2 silfur og 1 brons
Viðurkenningar = Besti keppandinn í bardaga. Besti keppandi í tækni. Besti keppandinn í samanlögðum árangri 3x. Hæðsta einkunn á svartbeltisprófi.
4 Íslandsmeistarartitlar á árinu.
Besti mögulegi árangur í tækni á öllum 5 mótum ársins í þeirri grein.
Besti mögulegi árangur á Scottish Open, tæplega 400 manna alþjóðlegu móti.
Víkurfréttir tóku skemmtilegt viðtal við Ástrós sem sjá má hér að neðan.