Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Sveindís Jane átti stórleik gegn Svíum
Sveindís hefur haldið til með landsliðinu á undanförnu þar sem þær hafa verið við æfingar og búið saman á hóteli. Henni hefur fundist sá tími skemmtilegur þótt þær væru innilokaðar. Mynd: Fótbolti.net
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 22. september 2020 kl. 20:19

Sveindís Jane átti stórleik gegn Svíum

– Lagði upp jöfnunarmark Íslands

Keflvíkingurinn Sveindís Jane Jónsdóttir lék sinn fyrsta leik með A landsliði Íslands gegn Lettum í síðustu viku. Þá átti Sveindís frábæra innkomu í landsliðið, skoraði tvö mörk í stórsigri Íslands og var hársbreidd frá því að setja þrennu í sínum fyrsta leik. Hún fékk annað tækifæri gegn sterku liði Svía í undankeppni EM og stóð heldur betur undir því trausti sem henni var sýnt. Sveindís var stórhættuleg og mjög ógnandi í leiknum, hún lagði m.a. upp jöfnunarmark Íslands með einu af sínum löngu innköstum inn á teig Svía. Þar fékk Elín Metta Jenssen boltann og skallaði í netið. Víkurfréttir slógu á þráðinn til Sveindísar rétt fyrir leik Íslands og Svíþjóðar og hún var tilbúin að gefa sér tíma í smá spjall um leikina.

Sveindís er nú á láni frá Keflavík og hefur heldur betur slegið í gegn með Breiðabliki í Pepsi Max-deildinni í sumar, hún hefur leikið 41 landsleik með yngri landsliðunum og núna tvo með aðalliðinu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Geggjuð tilfinning!

„Maður var ekki alveg að trúa þessu,“ sagði Sveindís um markið sem hún skoraði eftir aðeins sex mínútur í sínum fyrsta leik með aðalliði íslenska landsliðins, „en þetta var mjög gaman.“

– Hvernig leggst svo leikurinn gegn Svíum í þig?

„Bara mjög vel, við erum búin að æfa pressuna og varnarleikinn ótrúlega vel fyrir Svíaleikinn. Hann verður allt öðruvísi en leikurinn á móti Lettum, tveir gjörólíkir leikir. Svíarnir eru í fimmta sæti á heimslistanum, við erum svolítið á eftir þeim en þetta verður hörkuleikur og við eigum góðan séns í þær.“

– En hvernig ertu búin að hafa það síðustu daga, þið hafið verið lokaðar í ykkar kúlu?

„Ótrúlegt en satt þá er þetta búið að vera bara mjög kósí eiginlega. Við höfum aðstöðu á áttundu hæðinni [á Hilton hótelinu] þar sem hægt er að læra eða spila saman og þetta er búið að vera mjög fínt. Svo er líka góðum matur á hótelinu og það gerir mjög mikið fyrir okkur,“ segir Sveindís. „Annars er þetta bara búið að vera mjög gaman, þótt við séum innilokaðar.“

– Ert þú í byrjunarliðinu eða á að fækka í sókninni?

„Já, ég byrja inn á. Við teflum fram sama liði, dettum bara aftar á völlinn.“

– Gerðu þá eitt, settu eitt mark á Svíana – það myndi gleðja alla hérna suður frá.

„Ég reyni það, ég ætla að gera mitt besta,“ segir Sveindís Jane að lokum enda er farið að styttast í leikinn svo hún hefur öðrum og merkari málum að sinna.