Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn

Íþróttir

Mánudagur 13. janúar 2003 kl. 11:11

Taekwondomaður Reykjanesbæjar setur stefnuna hátt

Helgi Rafn Guðmundsson er 16 ára Sandgerðingur sem hefur æft taekwondo með Keflavík sl. tvö ár. Taekwondo er yfir 2000 ára gömul kóreisk bardaga- og sjálfsvarnaríþrótt sem er stunduð af yfir 55 milljónum manna um allan heim. Helgi var á dögunum valinn taekwondomaður Reykjanesbæjar og er hann vel að þeim heiðri kominn enda hefur kappinn staðið sig mjög vel í íþróttinni á þeim stutta tíma sem hann hefur æft. "Það er mikill heiður að fá slíka viðurkenningu. Þetta kom mér að sjálfu sér ekkert á óvart enda er þetta í samræmi við það sem ég hef verið að gera að undanförnu", sagði Helgi í samtali við Víkurfréttir. Þann 18. janúar nk. fer Helgi til Svíþjóðar ásamt mörgum af bestu Taekwondo mönnum landsins til að keppa á Norðurlandamótinu í greininni og er það ekki síst vegna stífra æfinga sem Helgi fékk boð um að fara en hann hefur æft mun skemur en aðrir. Taekwondo skiptist niður í hefðbundið Taekwondo, sem snýst um sjálfsvörn, líkamlega og andlega þjálfun og heimsspeki, og ólimpískt Taekwondo sem er bardagi sem snýst um að skora stig og er það hið síðarnefnda sem Helgi mun keppa í á mótinu. "Ég keppi í -68 kg. þyngdarflokki unglina en 10 Íslendingar keppa á mótinu. Ég er eini keppandinn frá Taekwondodeild Keflavíkur sem hef æft með landsliðinu og sá eini sem fer á þetta mót".
Taekwondo var samþykkt sem ólimpísk íþrótt og var fyrst keppt í því á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000. Keppnisbardagi í Taekwondo fer þannig fram að tveir keppendur berjast hvor við annan og eru þeir klæddir brynju sem hylur miðhlutann (ekki bakið) og höfuðhjálm. Stig eru gefin fyrir vel og fast framkvæmt spark í brynju eða hjálm eða högg í brynju. Bannað er að kýla í höfuð, fella andstæðinginn eða sparka í bak eða fyrir neðan belti. Nýlega voru teknar í gildi nýjar reglur sem gefa eitt stig fyrir spark í brynju og tvö stig fyrir höfuðspark þar sem erfiðara er að framkvæma þau vel. Bardagar eru 2x2 mín í unglingaflokkum, 3x2 í úrslitabardögum unglinga, 3x2 í fullorðins og 3x3 í úrslitabardögum fullorðinna. Helgi sagði í samtali við Víkurfréttir að langtímamarkmiðið væri að standa sig vel á erlendum vettfangi. "Ég ætla mér að halda áfram að æfa stíft. Markmiðið er að keppa á mótum erlendis og vonandi standa sig vel. Ég set stefnuna á Ólympíuleikana í Peking 2008 en við verðum bara að bíða og sjá hvort það rætist", sagði þessi hressi piltur að lokum.
SSS
SSS