UMFG til Tyrklands
Knattspyrnulið Grindavíkur heldur í dag til Tyrklands í 10 daga æfingaferð. Gengi liðsins í deildarbikarnum var nokkuð brösugt en liðið vann aðeins einn leik af sjö, gerði 3 jafntefli og tapaði 3 leikjum.
Eysteinn Hauksson, leikmaður Grindavíkurliðsins, sagði gengi liðsins dapurt í deildarbikarnum undanfarin ár en að það hafi sýnt sig að engin bein tenging sé á milli árangurs í deildarbikarnum og Íslandsmótinu. „Það er engin ástæða til að hafa áhyggjur en þó er hægt að segja að liðið geti miklu betur en það hefur verið að sýna í öllum keppnum undanfarin ár. Það hefur ekki verið fyrr en liðið er komið með bakið upp við vegg að menn bretti upp ermar og sýni hvað í þeim býr,“ sagði Eysteinn í samtali við Víkurfréttir.
Aðspurður um komandi leiktíð í sumar sagði Eysteinn að þegar hann horfði til leikmannahópsins og þjálfaranna þá væri tilfinningin góð. „Það er fagnaðarefni fyrir okkur að Ray og Orri eru komnir á fullt að nýju eftir meiðsli, við munum leika nokkra æfingaleiki í Tyrklandi og þjappa hópnum vel saman úti,“ sagði Eysteinn. Grindvíkingar hafa verið nokkuð óheppnir með meiðsli en Eysteinn sagði að ef Grindvíkingar næðu að stýra frá þeim í sumar þá væri liðið með sterkan 18 manna hóp.
VF-mynd úr safni/ Eysteinn í leik með Grindavík gegn KR