Úrslitaeinvígið hefst í kvöld í Ljónagryfjunni
Njarðvíkingar taka á móti Haukum í fyrsta leik úrslitanna í Iceland Express-deild kvenna klukkan 19:15 í Ljónagryfjunni í kvöld. Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Njarðvíkinga er spenntur og tilbúinn í slaginn. Njarðvíkingar sigruðu þrjá af fjórum deildarleikjum liðanna á tímabilinu og í bikarnum þurfti að framlengja þegar liðin áttust við. Það má því búast við hörku leikjum.
Annað árið í röð í úrslitum hjá Njarðvík, hvað er í gangi hjá grænum?
„Já, það er bara búið að vera mikill metnaður í þessu og góður andi í liðinu. Við erum með gott lið og engin tilviljun að við séum búin að tryggja okkur inn í úrslitin aftur. Það er mikil tilhlökkun í hópnum og hjá stuðningsmönnum að mæta þessu sterka Hauka liði.“
Bjóstu við að Haukar myndu sópa Keflavíkingum út?
„Ég bjóst ekki við að þeir myndu sópa þeim út en ég bjóst alveg við að Haukar færu áfram. Þær eru með það öflugt lið en það kom mér alveg rosalega að óvart að þær myndu taka þetta 3-0 og það verður virkilega gaman að fá að takast á við þær“.
Hvað er svona helst að varast hjá Haukunum?
„Eins og sást í leikjunum á móti Keflavík eru báðir útlendingarnir þeirra gríðarlega góðir og íslensku stelpurnar líka virkilega öflugar, þær eru með stelpur eins og Margrét Rósu og Gunnhildi sem eru að koma sterkar inn hjá þeim. Íslensku stelpurnar hjá þeim eru barráttuglaðar og duglegar og þær hafa gaman af þessu. Þær eiga bara algjörlega skilið eins og við að vera þarna í úrslitaeinvíginu.“
Hvernig eru málin í þínu liði eru allar stelpurnar heilar og eruð þið búnar að gera eitthvað skemmtilegt til að hita upp?
„Já, Það eru bara allar heilar og mikil tilhlökkun í hópnum.Við hittumst heima hjá mér á sunnudeginum í mat áður en að við fórum á leikinn Njarðvík - Grindavík í karlaboltanum. Svo æfðum við í gær og fórum í hús og seldum happdrættismiða. Svo er bara æft meira og beðið eftir því að fjörið hefjist.“
Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir er búin að koma sterk inn í liðið hjá ykkur, er ekki mikill plús að fá svona sterkan leikmann inn rétt fyrir úrslitakeppni?
„Jú, það er alveg frábært að hún hafi tekið þessa ákvörðun að taka fram skóna af hillunni. Hún er búin að styrkja okkur alveg gríðarlega mikið bæði inná vellinum og móralslega, hún hefur rosalega góð áhrif á hópinn og hún er bara frábær leikmaður og við vonum bara að hún eigi eftir að vera að spila með okkur í mörg ár í viðbót. Hún er bara kornung ennþá. Ef hún heldur áfram eins og hún er búin að vera undanfarið er það mikið fagnaðarefni fyrir Njarðvík. Hún er uppalinn Njarpvíkingur og sennilega ein af tveimur bestu stúlkunum sem Njarðvík hefur alið af sér.“
Eru einhverjar breytingar í kortunum eða haldiði bara áfram að spila ykkar leik?
„Við einblínum bara á okkar leik og hugsa um hvað við ætlum að gera og við þurfum að framkvæma hlutina okkar vel bæði í okkar sókn og spila frábæra vörn til þess að vinna þetta Haukalið.“
Má búast við skemmtilegri rimmu þegar þessi tvo lið mætast?
„Já ég held að það sé alveg pottþétt mál og vonandi verður bara alveg stútfullt uppí stúkunni hjá okkur í fyrsta leiknum í kvöld.
En hvað með þessi meiðsli hjá þeim, hefur það einhver áhrif á liðsheildina?
„Auðvitað er slæmt að missa stelpur út og Írisi sem er búin að vera með betri leikmönnum í deildinni í vetur en þær unnu Keflavík með tuttugu og eitthvað stigum í þriðja leik án þessara tveggja sem eru meiddar en kannski minnkar þetta breiddina hjá þeim. En þær eiga góðar stelpur sem hafa verið að koma inn fyrir þessar tvær.“