Mannlíf

Mánudagur 3. desember 2001 kl. 13:56

2001 nótt í Hringlist

Íris Jónsdóttir og Kolbrún Björnsdóttir, Kolla opnuðu ævintýraheim í Gallery Hringlist á laugardag. Sýningin ber nafnið 2001 nótt og stendur til 16. desember.
Íris Jónsdóttir er íbúum Reykjanesbæjar kunnug en hún og Kolla útskrifuðust frá málaradeild Mynd- og handíðaskóla Íslands árið 1997 og einnig við Accademia di Belle Arti di Brera í Milano árið 1996. Sýningin verður opin á verslunartíma Gallerý Hringlistar og á sunnudögum frá 9. desember. Að sögn Írisar tókst opnun sýningarinnar mjög vel. „Þetta er mjög ólíkt hjá okkur en ég tek ákveðið form sem kemur oft fyrir í ævintýrum og leik mér svolítið með það“, segir Íris en verk hennar eru akrýlverk á striga auk þess sem hún notast við blandaða mosaíktækni. „Ég held það blundi í okkur flestum ævintýraþrá en ég hef samt ekki hugsað þetta svona djúpt“, segir Íris en hún er yngst og á fjóra bræður og aldrei að vita nema hún hafi verið prinsessa í fyrra lífi. Allir sem hafa gaman af fallegri list eða ævintýrum eru hvattir til að kíkja á sýningu Írisar og Kollu og upplifa ævintýraheim.