Mannlíf

  • 60 manns og 80 hamborgarar
    Félagsmaður ánægður með hamborgara eftir puðið.
  • 60 manns og 80 hamborgarar
Miðvikudagur 29. apríl 2015 kl. 12:33

60 manns og 80 hamborgarar

Vel heppnaður Umhverfisdagur Keflavíkur í gær.

 

„Fyrir hönd Keflavíkur íþrótta- og ungmennafélags vil ég þakka ykkur fyrir stuðninginn á Umhverfisdegi okkar í gær,“ segir formaðurinn Einar Haraldsson á vefsíðu félagsins. Yfir sextíu manns tóku þátt. Eftir að búið var að fara yfir svæðin á starfssvæði félagsins og týna upp rusl var fólki boðið upp á 80 grillaða hamborgara að hætti formannsins ásamt gosi og Flóridana safa í félagsheimilinu.

„Það er okkar markmið að vel sé gengið um keppnissvæði og nærumhverfi félagsins, þau séu snyrtileg og okkur til sóma. Viljum við því sýna gott fordæmi með því að vera í fararbroddi að halda okkar nærumhverfi hreinu. Ennfremur viljum við beina þeim tilmælum til stuðningsmanna okkar og annarra velunnara sem koma og styðja við bakið á iðkendum og brýna jafnframt fyrir þeim að ganga ætíð vel um íþróttasvæðin „Hreint land fagurt land“,“ segir Einar ennfremur. 

 

Samstarfsaðilar Keflavíkur á Umhverfisdeginum voru Reykjanesbær umhverfissvið (sá um ruslapoka og að farga því rusli sem safnaðist eftir tiltekt), Víkurfréttir (sá um að fjalla um Umhverfisdaginn), Samkaup (tók þátt í grillinu), Körfuknattleiksdeild Keflavíkur (sá um hamborgarana), Myllan (sá um hamborgarabrauðin) og Ölgerðin (sá um drykkina). Þessum aðilum eru færðar sérstakar þakkir og félagsmönnum öllum.