Alltaf Keflvíkingur
– segir Sævar Halldórsson en hann flutti til Suðureyjar í Færeyjum fyrir 42 árum. Kynntist færeyskri konu sinni þegar hún var að spila handbolta hér á landi. Gerir við gömul útvörp og sjónvörp og fær karla í kaffi og spjall á verkstæðið á hverjum degi.
Sævar Halldórsson var þekktur einstaklingur í Keflavík fyrir nærri hálfri öld og hélt m.a. úti um tíma verslun og viðgerðarþjónustu á sjónvarps- og útvarpstækjum á Hafnargötu 25 ásamt Ólafi Thorlacius Jónassyni.
„Við höfðum lært útvarpsvirkjun hjá Einari Stefánssyni og byrjuðum fyrst uppi á Smáratúni og svo fórum við á Hafnargötuna. Við vorum hér í fjögur til fimm ár og seldum plötur, sjónvörp og útvörp og gerðum við þau líka,“ segir Sævar. Hann segir mikla breytingu hafa orðið á kauphegðun fólks þegar kemur að raftækjum og að viðgerðarstörf á þeim séu nánast að deyja út. „Það er nánast alveg dauð stétt rétt eins og skósmiðurinn, það er bara hent og keypt nýtt í dag,“ segir hann.
Þrátt fyrir það er Sævar með litla kaffistofu í heimabænum sínum í Færeyjum þar sem hann tekur að sér að gera við eitt og eitt raftæki. Verkstæðið er líka vinsæll samkomustaður margra þar í bæ þar sem spjallið er tekið yfir kaffibolla. „Ég er að gera við eitt og eitt sjónvarp og útvarp og það koma um fimmtán til tuttugu karlar hvern einasta morgun í kaffi, þeir koma með kökur og ég baka. Þetta hefur verið hefð í sirka fimmtán ár,“ segir Sævar. Aðspurður hvað aðal umræðan sé á kaffistofunni segir hann: „Það er ýmislegt, daglega lífið, gamlar sögur frá Grænlandi, sögur frá sjómennskunni og sögur frá því þeir voru á vertíð á Íslandi. Þá komu mjög margir frá Suðurey til Sandgerðis og á Suðurnesin, það er því mikil tenging þarna á milli. Í Sandgerði eru kannski 150 manns sem hefur rætur sínar að rekja til Suðureyjar.“
Alltaf sami neistinn í Keflavík
Sævar var staddur á Ljósanótt síðustu helgi og segir hann það gaman að sjá breytingarnar sem orðið hafa í bænum. „Það er ótrúlegt að sjá breytingarnar hérna, þetta er mikið stærra, í gamla daga þekkti maður næstum hver átti heima í öllum húsum bæjarins. Sú tíð er liðin en það er sami neisti og var í gamla daga í Keflavík. Þetta er menntunarbær og bæjarfélagið hefur skapað mikið fyrir ungdóminn hér og maður sér það á sundlauginni og íþróttasvæðinu og öllu því sem hefur verið gert hérna á síðustu þrjátíu árin. Maður gat ekki látið sig dreyma um að fá svona aðstöðu í Keflavík, miða við gömlu sundlaugina og gamla malarvöllinn fyrir ofan Hringbraut,“ segir Sævar og bætir við: „Síðan er æskan svo elskuleg, ég mætti fjórum strákum og þeir buðu mér góðan daginn. Ég var svo ánægður að sjá að þeir gerðu það.“
Sævar fór í árgangagönguna til að hitta gamla skólafélaga. „Það er alltaf sami neistinn þegar allir koma saman aftur og gaman að hitta skólafélagana og skólasystkinin,“ segir hann.

Sævar framan við radíóverkstæði sitt í Suðurey í Færeyjum. VF-myndir: Gylfi Kristinsson
Ávallt Keflvíkingur
Sævar minnist þess þegar hann spilaði handbolta og knattspyrnu með Knattspyrnufélagi Keflavíkur og ferðanna sem hann fór í með liðunum.
„Ég var mikið í KFK (Knattspyrnufélagi Keflavíkur) og Siggi Steinþórs var höfðingi hjá okkur öllum strákunum í félaginu. Það má segja að hann og Hafsteinn Guðmundsson sköpuðu handboltann og knattspyrnuna fyrir mína kynslóð. Siggi Steinþórs var ótrúlegur, hann fór með okkur í ferðalög til Vestmannaeyja, Húsavíkur og Akureyrar. Við fórum með þrjár fullar rútur af ungu fólki,“ segir Sævar. Kona Sævars spilaði einnig handbolta en hann kynntist henni þegar hún spilaði hér á landi. „Ég var 33 ára þegar ég hitti konuna mína, hún var á Íslandi að spila handbolta. Svona getur allt skeð í sambandi við íþróttirnar,“ segir Sævar. Hann kann vel við sig í Færeyjum og segir færeysku þjóðina vera vinalega og hrekklausa en honum þykir gott að koma aftur á æskuslóðirnar. „Ég verð alltaf Keflvíkingur þó ég sé búinn að búa í Færeyjum í 42 ár. Ég er eins og Rúnni Júll, alltaf Keflvíkingur,“ segir Sævar að lokum.

Sævar með bikar sem hann fékk fyrir frábær störf fyrir Knattspyrnufélag Keflavíkur, KFK, þegar hann flutti til Færeyja fyrir 42 árum.