Mannlíf

Bókasafnið: Ferðalög í ýmsum myndum
Þriðjudagur 8. nóvember 2005 kl. 14:08

Bókasafnið: Ferðalög í ýmsum myndum

Blásið verður til norrænnar bókasafnaviku á Bókasafni Reykjanesbæjar mánudaginn 14. nóvember kl. 18:00. Lesið verður við kertaljós úr bók Selmu Lagerlöf „Nilli Hólmgeirsson og ævintýraför hans um Svíþjóð“, hlýtt á norræna söngva og fræðst um heima víkinga í Reykjanesbæ.

Norræna bókasafnavikan er nú haldin í 10. sinn en markmið hennar er að vekja athygli á sameiginlegum arfi Norðurlandanna og þeirrar fornu menningarhefðar að lesa við kertaljós í baðstofum. Þemað í ár er „Á ferð í Norðri“ og verður því sjónunum beint að ferðalögum í tíma og rúmi.

Dagskráin hefst kl. 18:00 með því að slökkt verður á rafmagnsljósum, kertaljós tendruð og Fjóla Oddgeirsdóttir, nemi í Njarðvíkurskóla les kaflann „Borgin á hafsbotni“. Sönghópurinn „The Engels“ úr Njarðvíkurskóla mun flytja nokkra norræna söngva og Árni Sigfússon bæjarstjóri kynnir bæjarbúum hugmyndina að Víkingaheimum við Fitjar.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.