Búin að venjast ferðatöskulífinu
Hin 24 ára gamla Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, söngkona hljómsveitarinnar Of Monsters and Men, hefur lifað ævintýraríkt ár með hljómsveit sinni á ferðalögum um heiminn. Nanna Bryndís er hins vegar komin heim í smá frí og stendur í flutningum núna rétt fyrir jól. Nanna Bryndís er úr Garðinum og viðurkennir að hafa verið óþekktarormur, þegar hún var yngri, sem gerði símaat í fólki og rændi kandís af kennarastofunni í Gerðaskóla.
Japan og Suður Ameríka
- Þetta hefur verið viðburðaríkt ár hjá þér og vinsældir sveitarinnar hafa aldrei verið meiri. Hvað stendur uppúr?
„Við erum búin að spila á fullt af áhugaverðum stöðum og tónlistarhátíðum og hitta fullt af góðu fólki. Það hefur kannski staðið mest uppúr á árinu. Mér finnast ferðalögin ótrúlega skemmtileg í heild sinni. En að koma til Japan og Suður Ameríku stóð kannski helst uppúr. Það eru ekki staðir sem maður fer oft á í lífinu. Ég vona hinsvegar að ég fái að fara þangað oftar.
- Hvernig er „lífið í ferðatöskunni“, að vera á endalausu flakki um heiminn?
„Ég er búin að venjast því furðulega vel. Ég viðurkenni þó hvað ég er löt við að pakka uppúr og í töskuna. Það venst seint. En annars kann ég vel um mig á þessu flakki. Við sofum yfirleitt í rútu og mér þykir bara nokkuð þægilegt að láta rugga mér í svefn á kvöldin. Mér þykir svo skemmtilegt að vakna alltaf á nýjum stað og þurfa að láta heilan vinna vinnuna sína og reyna að ráða það hvernig maður fer nú eiginlega að því að rata á nýjum stað“.
Góðar æskuminningar
Nanna Bryndís er úr Garðinum og segir í samtali við Suður með sjó að sér þyki mjög vænt um æskuminningarnar sínar úr Garðinum.
„Þegar ég horfi til baka þá finnst mér frábært að ég fékk að alast upp þarna. Ég átti nokkra góða vini þarna sem barn og unglingur. Ég, Sigurður Freyr og Daníel Valur vorum nokkuð gott þríeyki lengi og brölluðum ýmislegt skrítið. Við vorum oft á hjólabrettum og bjuggum til stuttmyndir, gerðum símaat í fólki og rændum kandísmolum úr kennaraskrifstofunni í Gerðaskóla,“ segir Nanna Bryndís og bætir svo við: „Æj, ég á kannski ekki að viðurkenna svona. Ég kaupi meira handa ykkur kæru kennarar“.
-Hvernig gengur að halda sambandi við æskufélagana þegar þú ert á öllu þessu flakki?
„Einn af mínum bestu vinum er æskuvinur minn úr Garðinum og svo þykir mér alltaf að ótrúlega gaman að hitta krakkana sem ég ólst upp með en því miður gerist það alltof sjaldan“.
Hljómsveitin hennar Nönnu Bryndísar, Of Monsters and Men, er í smá pásu frá spilamennsku eins og er. Sveitin mun þó koma saman aftur til æfinga í janúar og ný plata þegar sveitin hefur viðað að sér nægu efni. Þó svo sveitin sé í pásu þá er ekki þar með sagt að Nanna Bryndís sitji auðum höndum.
„Nei, ég er að flytja inn í nýja íbúð svo ég verð örugglega mjög upptekin við það, annars ætla ég að reyna að eyða sem mestum tíma um jólin með fjölskyldu og vinum, kannski panikka aðeins yfir jólagjafakaupunum, borða svo alltof mikið og svo ætla ég að reyna að slappa af þar á milli,“ segir söngkonan úr Garði í samtali við Suður með sjó.
(Úr blaðinu SUÐUR MEÐ SJÓ sem fylgdi Víkurfréttum 19. desember sl.)