Mannlíf

Engin hugmynd er slæm
Brynja Ýr Júlíusdóttur og Azra Crnac.
Sunnudagur 6. júlí 2014 kl. 12:00

Engin hugmynd er slæm

Öflugt ungmennaráð í Reykjanesbæ.

 

Ungmennaráð Reykjanesbæjar var stofnað í nóvember árið 2011 og fundaði í fyrsta sinn með bæjarstórn ári síðar. Ráðið skipa 20 fulltrúar (með aðal- og varamönnum) frá grunnskólum bæjarins, auk fulltrúa frá tómstundaráði, íþróttaráði, Fjörheimaráði, NFS, Féló, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, auk fulltrúa frá Björgunarsveitinni Suðurnes, kirkjunni og skátunum. Olga Björt hitti fulltrúana Özru Crnac og Brynju Ýr Júlíusdóttur í Ungmennagarðinum, einum af hugmyndum ráðsins, og spurði þær spjörunum úr.
 
Litríkari strætisvagnar
„Við hittumst alltaf ráðið og hendum hugmyndum á milli, rökræðum hvað væri sniðugt að gera og hvað ekki. Svo mætum við með hugmyndirnar á bæjarstjórnarfundi einu sinni á önn. Bæjarstjórnin fær svo tíma til að hugsa málið og svo kemur í ljós hvort hún er reiðubúin að styðja okkur eða ekki,“ segir Azra. Vel hafi verið tekið í hugmyndirnar hjá bæjarstjórn og Ungmennaráðið sé þakklát samstarfinu við hana. Spurðar um hvort kappkostað hafi verið að hafa hugmyndirnar ekki of dýrar játar Azra því en þó hafi komið hugmyndir sem séu í dýrari kantinum. „Til dæmis að hafa strætisvagnana litríkari, eins og bleika eða græna. En við reynum að hafa kostnaðinn innan skynsamlegra marka. Engin hugmynd er slæm.“ Hugmyndin með strætisvagnana segir Azra að einhverjir í bæjarstjórn hafi viðurkennt að hafa ekki spáð mikið í, enda taki þeir ekki strætó sjálfir.
 
Vilja hafa áhrif á bæinn sinn
Í Ungmennaráðinu eru, eins og áður hefur komið fram, einstaklingar sem koma víða frá en hafa það að markmiði að hafa áhrif á bæinn sinn. „Þetta er áhrifaríkt fólk sem vill gera gott í sínu bæjarfélagi. Við höfum t.d. fengið hvatagreiðslurnar til baka vegna íþróttanna og í vinnslu er að hafa sameiginlegan íþrótta- og fjölskyldudag fyrir skólana og að mála ruslatunnurnar í bænum í áberandi litum svo að einhverjir vilji henda rusli í þær. Svo viljum við betri lýsingu á göngustígana í bænum því á dimmum og köldum vetrarkvöldum viljum við geta labbað örugg á milli húsa og hverfa til vina okkar,“ segir Azra. Brynja Ýr bætir við að einnig hafi Ungmennaráðið látið breyta strætókerfinu og fjölga trjám vegna þess að þau vanti víða. „Það átti líka að hætta við Götuleikhúsið en við hömruðum á því að því skyldi haldið áfram. Ég er t.d. þar í sumar og það skiptir miklu máli fyrir krakka sem langar að verða leikarar,“ segir Brynja Ýr.
 
Góð og þroskandi reynsla
Þær stöllur segja að það að starfa í Ungmennaráði veiti mikinn þroska, þjálfun í að mynda sér skoðanir, ræða þær og koma þeim á framfæri. „Það er mikilvægt fyrir okkur unga fólkið á uppreisnaraldrinum í stað þess að þegja bara heima. Þetta er einnig mjög góð reynsla,“ segir Azra. Brynja Ýr tekur undir það og bætir við að það skipti miklu máli fyrir unglinga að hafa áhrif á bæjarfélagið. „Það er líka mikilvægt að finna að það sem við höfum að segja skiptir máli,“ segir Brynja Ýr að lokum.
 
VF/Olga Björt