Er fjör á fjölbraut?

Undirritaður var einu sinni á þeim tímamótum að hann þurfti að velja sér skóla og endaði hann með því að fara í Fjölbrautaskóla Suðurnesja hér eftir F.S. Hann og vinir hans höfðu ímyndað sér kröftugt félagslíf og góða klúbbastarfsemi en sú varð raunin ekki. Nú er undirritaður að klára sitt
annað ár í áður nefndum skóla og hefur hann gert sér grein fyrir því að mikið verk er fyrir höndum ef bæta á félagslífið í skólanum. Til þess að það sé mögulegt þurfa bæði nemendur og síðast en ekki síst nemendaráð að hrista af sér slenið og taka þátt í félagslífinu. Því öflugt félagslíf byggist upp á hvetjandi nemendaráði og hressum nemendum. Oftar en ekki hefur dregið úr mætti nemenda í FS er þeir horfa til fjölbreytts félagslífs í skólum á höfuðborgarsvæðinu. Málið er að við getum orðið eins öflug og þau nemendafélög ef við bara leggjum okkur fram. Ég tek dæmi um Fjölbrautaskólann í Garðabæ , hér eftir F.G. , þar sem félagslíf þeirra var í lamasessi fyrir ári síðan svipað og hjá okkar nú. Fyrir átta mánuðum tók ný stjórn við hjá F.G. og ætlaði stjórnin sér stóra hluti og ímyndaði sér eitthvað sem enginn hafði áður þorað. Það eina sem þurfti til að gera þessa hluti var þáttaka nemenda í skólanum. Það tókst og núna er F.G. með öflugt félagslíf. Einn af þessum stóru hlutum sem F.G. hafði ímyndað sér var að setja upp leiksýningu sem átti eftir að setja svip sinn á félagslífið.
Auglýst var eftir leikurum og buðu sig svo margir fram að áheyrnarpróf þurfti að hafa fyrir alla. Þessi sýning heitir nú Hárið og byrjuðu þeir að
sýna hana fyrir mánuði. Salurinn hjá þeim tekur u.þ.b 500 manns og ennþá eru þau að fylla og hálf fylla salinn. Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja, hér eftir , N.F.S. er að reka klúbb sem heitir Vox Arena og ákvað þessi klúbbur að hefja samstarf við Leikfélag Keflavíkur. Auglýst var eftir leikurum hjá okkur svipað og hjá F.G. og aðeins u.þ.b 20 manns mættu. Vox Arena og Leikfélagið ákvað þó ekki að gefast upp og náði að fjölga hópnum upp í þrjátíu. Samþykkt var að sýna söngleikinn Gretti sem hafði verið sýndur hér í Reykjanesbæ árið 1989. Mikil vinna var lögð í þetta af hálfu nemenda og átti útkoman eftir að verða frábær. Fyrsta sýninginn var uppseld enda um frumsýningu að ræða. Nemendurnir sem stóðu að leiksýningunni horfðu björtum augum á framtíð leikritsins og væntu þess að allir í F.S. kæmu að sjá. Svo varð raunin ekki. U.þ.b 50 manns af 700 sem sækja þennan skóla hafa séð þessa sýningu og er það til svo mikillar skammar og sýnir einmitt
stemninguna og áhugann í F.S.
Ekki má svo gleyma bæjarbúum sem einnig hafa látið þessa sýningu falla í gleymsku og er það dálítið sárt að horfa upp á þetta allt saman. Loksins þegar nemendur taka sér stórt fyrir hendur þá hrynur það bara beint fyrir framan andlitið á þeim. Ég vona að við getum í framtíðinni átt öflugt
félagslíf þar sem öllum líður vel og fólk hlakkar til að geta tekið þátt í starfseminni sem er á bakvið hvern einasta klúbb , hvert einasta ball og
hverja einustu sýningu sem skólinn og nemendafélagið stendur fyrir. En raunveruleikinn er sá að áhugaleysi og kraftleysi herjar nú á megni
nemenda í F.S. en hver gæti ástæðan verið. Gæti það verið nemendaráðið?
Gæti það verið nemendurnir sjálfir? Gæti það verið stjórn skólans? Nú þegar önnin er á enda og félagslífið leggst í dvala vill ég biðja alla að
líta í eigin barm og koma með ferskar hugmyndir um hvernig hægt er að bjarga þessu litla félagslífi næsta haust. Því ég held að við þurfum þess.
Atli Már Gylfason
Nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurnesja