Fjölmenni á bókmenntakvöldi

Árið 1994 hóf Herdís Helgadóttir meistaranám í mannfræði við HÍ, þá orðin
67 ára og komin á eftirlaun. Náminu lauk Herdís vorið 2000 og í lokaritgerð
sinni rannsakaði hún líf og kjör sextán kvenna sem voru ungar að árunum
1940-1947 þegar Ísland var hersetið land. Herdís tók viðtal við konurnar
sem sögðu henni frá uppvexti sínum fyrir hersetuna og daglega lífinu í
sambýli við herlið tveggja stórvelda um sjö ára skeið. Hún athugaði einnig
hvernig lífi og kjörum kvenna og stúlkubarna var háttað í íslenska
samfélaginu allt frá árinu 1900 með rannsókn á lögum og reglugerðum sem
höfðu áhrif á líf þeirra ásamt athugunum á skrifum um þær.
Ritgerðin „Konur í hersetnu landi ? Ísland á árunum 1940-1947" er
undirstaða bókar Herdísar „Úr fjötrum - íslenskar konur og erlendur her",
sem kom út fyrir síðustu jól og kynnt var í gærkveldi.
Oddný Sen, kvikmyndafræðingur og rithöfundur skrifaði lífssögu Myriam
Bat-Yosef, "Á flugskörpum vængjum", sem Fróði gaf út 1996, einnig lífssögu
Rögnu Bachmann, "Úr sól og eldi - leiðin frá Kamp Knox" sem Iðunn gaf út
árið 2000. Iðunn gaf einnig út bókina "Kínverskir skuggar" árið 1997 en það
er söguleg skáldsaga, byggð á ævi ömmu Oddnýjar, Oddnýju E. Sen. Fyrsta
skáldsaga Oddnýjar "Medúsan" kom út hjá Sölku-forlagi fyrir síðustu jól.
Oddný kynnti þessar 4 bækur og las stutt brot úr þeim öllum (4 mjög ólíkar
konur).
Auður Styrkársdóttir, forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands kynnti safnið
og ýmsar hugmyndir sem safnið væri að vinna að, meðal annar er fyrirhuguð
ganga um miðbæ Reykjavíkur þar sem farið verður á slóðir kvenna. Auður
sagði gestum frá því að aðeins eina styttu af nafntogaðri konu væri að
finna í miðbæ Reykjavíkur.
Úlfhildur Dagsdóttir, bókmenntafræðingur fjallaði um hvernig skrif kvenna
hafa verið metin, allt frá 18. öld til dagsins í dag og kom víða við í
fyrirlestri sínum.
Samstarf um bókmenntakvöldin hófst á árinu 2000, sem var menningarár og hafa þau síðan verið að eflast og festast í sessi. Næst er áætlað að gera dagskrá til að minnast hundrað ára fæðingarafmælis Nóbelskáldsins Halldórs Laxness.